Styðja við rétt fólks til að búa í öruggu húsnæði

Mannréttindi

""

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkur ályktaði einróma á fundi sínum 8. október sl. um mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi fólks þegar kemur að aðgengi að öruggu og viðunandi húsnæði.

Einnig var lögð áhersla á nauðsyn þess að samtal fari fram um aðgerðir til úrbóta, með aðkomu löggjafar- og framkvæmdavalds ríkisins, með vísan í minnisblað mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

Var minnisblaðið unnið í kjölfar mannskæðs bruna við Bræðraborgarstíg 1 í sumar þar sem þrjár manneskjur létu lífið af sökum eldsvoða í leiguhúsnæði. Því horfir ráðið til mögulegra aðgerða á sviði brunavarna, öryggis og aðbúnaðs íbúa sem og styrkingu á eftirliti með því fyrir sjónum að skoða leiðir til að styðja betur við mannréttindi einstaklinga til öruggrar búsetu.

Í minnisblaðinu  kemur fram að núgildandi reglur taka ekki fyllilega á þeim raunveruleika sem samfélagið stendur frammi fyrir og úrbóta er þörf til að koma í veg fyrir að hættulegar byggingar séu leigðar út til einstaklinga í miklum húsnæðisvanda. Fara þarf yfir lög og reglur og verklag þeirra stofnana sem bera ábyrgð á eftirliti með byggingum, skerpa þurfi á ábyrgð og skýra þurfi eftirlitsheimildir. Þar að auki þurfi upplýsingar um rétt leigjenda og hvert leigjendur geta leitað eftir aðstoð og beint sínum kvörtunum að vera skýrar og aðgengilegar á mismunandi tungumálum.

,,Það er með öllu óásættanlegt í okkar samfélagi að berskjölduð og jaðarsett staða einstakra hópa eins og innflytjenda og þeirra sem tala ekki íslensku leiði til mismununar þar sem þeim er gert að búa við óviðunandi húsakost sökum úrræðaleysis, þar sem öryggi þeirra er stefnt í hættu.” Segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Ráðið leggur áherslu á að bregðast þurfi skjótt við varðandi húsnæðisaðbúnað jaðarsettra hópa með virku samtali ríkis og sveitarfélaga.

Ályktun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og minnisblað mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkur