Stuðningur við Fab Lab Reykjavík tryggður

Undirritun vegna FabLab

Í vikunni var undirritaður samstarfssamningur um rekstur stafrænnar smiðju, Fab Lab Reykjavík, sem hefur það verkefni að styðja við nýsköpunarhugmyndir og vöruþróun meðal almennings, sem og innan menntastofnana og atvinnulífs.  

Fab Lab Reykjavík á 10 ára afmæli og hefur Reykjavíkurborg stutt við smiðjuna frá stofnun hennar 2014. „Fab Lab-smiðjan hefur verið afar mikilvæg fyrir nýsköpunarsamfélagið, fyrir Breiðholtið, fyrir Reykjavík sem borg tækifæranna og við erum stoltur bakhjarl. Í smiðjunni fer fram ótrúlega fjölbreytt og mikilvægt starf sem styður við grósku og þróun hugmynda. Frá kennslu og fræðslu á öllum skólastigum og við sérstök verkefni sem tengjast hugverkaiðnaði, skapandi greinum og tækniumhverfi,“ sagði Einar Þorsteinsson, borgarstjóri við þetta tilefni.
 

Undirritun vegna FabLab

Undirritunin fór fram í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti. Borgarstjóri skrifaði undir fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra fyrir hönd ríkisins og Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari fyrir hönd Fjölbrautarskólans í Breiðholti. 

Stuðningur við FabLab - undirritun

Samningurinn sem nú er undirritaður er til þriggja ára og gildir til ársloka 2026. Framlag Reykjavíkurborgar fer í að greiða launakostnað tveggja starfsmanna smiðjunnar. 

Stuðningur Reykjavíkurborgar við Fab Lab Reykjavík er liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu borgarinnar og því að skapa gott umhverfi nýsköpunar svo framsækin fyrirtæki og starfsemi geti þrifist sem best. Sem borg og samfélag stöndum frammi fyrir fjöldamörgum áskorunum sem krefjast nýrra lausna og því viljum við styðja við og byggja upp þá nýsköpunarinnviði borgarinnar sem hjálpa góðum hugmyndum að verða að fyrirtækjum og lausnum morgundagsins sem skila árangri í þágu íbúa.

Fyrir utan að eiga í samstarfi um rekstur Fab Lab smiðjunnar þá vinna Reykjavíkurborg og Fab Lab saman að GreenIn Cities sem er nýtt evrópskt Horizon verkefni þar sem samsköpun og þróun grænna svæða í samstarfi við íbúa verður í brennidepli. Þátttaka Reykjavíkur snýr að þróun grænna svæði í Breiðholti í náinni samvinnu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og íbúa í hverfinu.