Unnið er hörðum höndum að lokafrágangi við nýjan strandblaksvöll við Laugardalslaug. Völlurinn er reistur fyrir Smáþjóðaleikana 2015 sem verða settir mánudagskvöldið 1. júní.
Mikið hefur gengið á við Laugardalslaug að undanförnu en þar hefur allt verið á fullu í undirbúningi fyrir Smáþjóðaleikana. Búið er að leggja varanlegan strandblaksvöll við hlið laugarinnar.
„Þetta er verulega skemmtilegt en nú verður keppt í fyrsta sinn á alþjóðlegu móti í strandblaki á Íslandi,“ segir Torfi Jóhannsson frá Blaksambandi Íslands en hann verður vallarstjóri á strandblaksmótinu á Smáþjóðaleikunum.
Þrátt fyrir að völlurinn sé búinn til sérstaklega fyrir keppni á Smáþjóðaleikunum er hann varanlegt mannvirki og verður hann opinn fyrir gesti Laugardalslaugar líkt og hreystibrautin við hliðina. Laugargestir munu því geta spreytt sig á strandblaki í framtíðinni sem bætir þjónustu Laugardalslaugar enn frekar. Þá verður völlurinn nýttur til innlendra og alþjóðlegra móta í framtíðinni.