Strætó í Gufunes

Strætó mun hefja ferðir í Gufunesþorp 2. janúar næstkomandi en borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 7. desember sl. aukin framlög vegna strætósamgangna í Gufunesi.

Til að byrja með verða strætósamgöngur úr Gufunesi í formi pöntunarþjónustu. Komið verður upp merktri biðstöð hjá Gufunesþorpi en þar bíður farþegi eftir leigubíl sem kemur þeim á næstu skiptistöð Strætó, líkast til verður það skiptistöðin í Ártúni. Panta þarf bílinn a.m.k. 30 mínútum fyrir áætlaða brottför.

Með pöntunarþjónustunni pantar viðskiptavinurinn ferð með því að hringja í Hreyfil í síma 588 5522 og farþegi sýnir bílstjóra Strætóappið eða Klappkortið sitt til að staðfesta ferðina.