Stórfyrirtæki byggja upp í Reykjavík

Atvinnumál Framkvæmdir

Hólmsheiði - glaðst yfir viljayfirlýsingum um uppbyggingu

Fimm öflug fyrirtæki vilja byggja upp starfsemi sína á nýju atvinnusvæði á Hólmsheiði og af því tilefni fóru forsvarsmenn þeirra og borgarstjóri á svæðið og handsöluðu lóðarvilyrði  á þessu nýja athafnasvæði. 

Fyrirtækin sem ætla að koma sér fyrir á Hólmsheiði verða þar með fjölbreytta starfsemi:

  • Ölgerðin mun byggja upp vöru- og dreifingarmiðstöð, auk vatnsátöppunarverksmiðju;
  • Alvotech mun reisa pökkunarmiðstöð og kæligeymslur fyrir líftæknilyfjaframleiðslu fyrirtækisins; 
  • Parlogis mun reisa hátæknivætt vöruhús;
  • Veritas ætlar að byggja vöruhús fyrir heilbrigðisstarfsemi; 
  • Safari ætlar að reisa nýjar höfuðstöðvar.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, er ánægður með áhuga fyrirtækja fyrir hinu nýja svæði. „Reykjavík er á miklu vaxtarskeiði og nýjum borgarhlutum og hverfum fer fjölgandi. Í dag eru um 2.500 íbúðir í byggingu og nú bætist við nýtt athafnasvæði fyrir fyrirtækin í borginni. Með athafnasvæðinu á Hólmsheiði er fyrirtækjunum gert kleift að vaxa og dafna innan borgarmarkanna og undirtektirnar hafa verið frábærar! Það er sérstaklega ánægjulegt að borgin og þessi flottu fyrirtæki ganga í takt þegar kemur að því að gæta sérstaklega vel að náttúrunni á svæðinu,” segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri. 

Uppbygging athafnasvæðis í takt við þarfir fyrirtækja og græn sjónarmið

Borgarráð hefur samþykkt lóðarvilyrðin og gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst í október. Deiliskipulag mun taka mið af þörfum fyrirtækjanna og umhverfissjónarmiða. Áætlaðar tekjur borgarinnar af sölu byggingarréttar og álagningu gatnagerðargjalda eru um 4,4 milljarðar.

Á Hólmsheiði

Skrifað var undir á Hólmsheiði í dag í blíðskaparveðri.

Fyrirtækin voru valin eftir að auglýst var eftir áhugasömum aðilum fyrr á þessu ári og var ákveðið að ganga til samninga um lóðarvilyrði við fyrirtækin fimm í fyrsta fasa. Við val fyrirtækja var haft að leiðarljósi að starfsemi væri ekki mengandi, en gæta þarf sérstaklega að vatnsverndarsjónarmiðum og öðrum umhverfisþáttum vegna nálægðar við vatnsból. Kallað var eftir áhuga fyrirtækja áður en deiliskipulagsvinnu lyki til að hægt væri að fá þau að borðinu snemma í ferlinu til að auðveldara væri að mæta þörfum þeirra. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag verði auglýst í október og þá verður kallað eftir ábendingum hagaðila. 

Nýtt athafnasvæði á Hólmsheiði fer í deiliskipulag

Yfirlitsmynd af hinu nýja athafnasvæði

Áhættuþættir hafa verið metnir

Nú þegar hefur verið unnin vatnafarsgreining til að meta hættu á mengun gagnvart nærliggjandi vatnsbólum. Með hliðsjón af viðmiðum vatnsverndarskipulags verður fyrirhugað athafnasvæði skilgreint sem öryggissvæði vegna yfirborðsvatns. 

Þá liggur einnig fyrir kortlagning á jarðfræði svæðisins eða sprungugreining. Nýtt er að niðurstöður slíkrar greiningar liggi fyrir við upphaf skipulagsvinnunni. 

Ölgerðin verður með vörudreifingarmiðstöð og vatnsátöppun á Hólmsheiði

Viljayfirlýsing handsöluð á Hólmsheiði

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri handsala viljayfirlýsinguna.

„Ölgerðin tekur enn eitt framfaraskref með fyrirhuguðum framkvæmdum á Hólmsheiði,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar. „Hér viljum við reisa glæsilega vöru- og dreifingarmiðstöð sem mun auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri, en að auki horfum við til þess að reisa hér vatnsátöppunarverksmiðju fyrir Iceland Spring. Við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn, í bókstaflegri merkingu, því vatnslind Iceland Spring er einmitt stutt frá og því stutt að sækja það áður en það heldur í langferðir á erlenda markaði. Hróður íslenska vatnsins berst æ víðar undir merkjum Iceland Spring og sala þess eykst jafnt og þétt þökk sé m.a. gæðum vatnsins hérlendis.“  

Hátæknivætt vöruhús Parlogis

Viljayfirlýsing handsöluð á Hólmsheiði

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri handsala viljayfirlýsinguna

„Á Hólmsheiði mun Parlogis reisa hátæknivætt vöruhús til að styðja við okkar mikilvæga hlutverk að tryggja landsmönnum aðgengi að lífsnauðsynlegum lyfjum og öðrum heilbrigðisvörum. Við erum mjög ánægð með að hafa verið valin úr hópi fyrirtækja til að taka þátt í uppbyggingu á þessu spennandi svæði sem jafnframt tryggir okkur svigrúm til framtíðarvaxtar“ segir Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis. 

Safari ætlar að byggja glæsilegar höfuðstöðvar  

Viljayfirlýsing handsöluð á Hólmsheiði

Friðrik Joshua Friðriksson, framkvæmdastjóri Safari og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri handsala viljayfirlýsingu. 

„Safari hjól hefur tekið stórt skref í átt að framtíðarvexti með ákvörðuninni um að reisa nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar á Hólmsheiði,” segir Josh Friðriksson, framkvæmdastjóri Safari. „Þetta æðislega svæði býður ekki aðeins upp á einstaka staðsetningu í nánu samneyti við náttúruna, heldur einnig frábæra innviði sem styðja við þróun og framfarir okkar til framtíðar. Með þessum áfanga sköpum við ný tækifæri fyrir vöxt fyrirtækisins með nýsköpun í vörum og þjónustu. Við erum ákaflega spennt fyrir þessu skrefi og þeirri spennandi framtíð sem framundan er.“

Alvotech reisir pökkunarmiðstöð og kæligeymslur fyrir líftæknilyfjaframleiðslu

Viljayfirlýsing handsöluð á Hólmsheiði

Jóhann G. Jóhannsson, meðstofnandi og yfirmaður fjármála hjá Alvotech og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri handsala viljayfirlýsingu

Veritas mun byggja vöruhús fyrir heilbrigðisstarfsemi

Viljayfirlýsing handsöluð á Hólmsheiði

Jón Björnsson, forstjóri Veritas og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri

Viljayfirlýsingar mikilvægur áfangi

Hólmsheiði - glaðst yfir viljayfirlýsingum um uppbyggingu

Hópurinn sem kom saman á Hólmsheiði í dag hefur komið að gerð viljayfirlýsinga. Talið frá vinstri: Kamma Thordarson, verkefnastjóri í atvinnuþróun hjá Reykjavíkurborg; Jón Björnsson, forstjóri Veritas; Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar; Einar Þorsteinsson, borgarstjóri; Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis; Friðrik Joshua Friðriksson, framkvæmdastjóri Safari; Jóhann G. Jóhannsson, meðstofnandi og yfirmaður fjármála hjá Alvotech; Jón Viðar Guðjónsson, verkefnastjóri hjá Aztiq; Jóhanna Kristrún Birgisdóttir, lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg; Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri Athafnaborgarinnar.