Stór dagur í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar

Velferð

""

Mikilvægum áfanga var náð í velferðarþjónustu borgarinnar í dag en þá fengu fleiri en 300 einstaklingar sem nýta þjónustuna fyrstu sprautuna í bólusetningu við COVID-19.

Mikilvægum áfanga var náð í velferðarþjónustu borgarinnar í dag þegar fleiri en 300 einstaklingar sem nýta þjónustuna fengu fyrstu sprautuna í bólusetningu fyrir COVID-19.

Bólusetningin fór fram í Orkuhúsinu við Suðurlandsbraut og streymdi fólk að til að fá fyrri sprautuna. Að sögn Ólafíu Magneu Hinriksdóttur, sem er forstöðumaður skrifstofu málefna fatlaðs fólks, voru þetta fatlaðir einstaklingar sem njóta víðtækrar þjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Forstöðumenn og starfsfólk íbúðakjarna fylgdu sínu fólki í bólusetninguna og gekk allt hratt og vel fyrir sig. „Þetta var mjög vel skipulagt og gekk allt vel,“ sagði Eva Dögg Júlíusdóttir sem veitir íbúakjarna í Starengi í Grafarvogi forstöðu.

Sigmar Þór Árnason forstöðumaður Liðsaukans var á sama máli. „Við sjáum nú loksins ljósið við enda ganganna. Þetta er mjög stór dagur í velferðarþjónustu borgarinnar,“ sagði Sigmar Þór þegar bólusetningu hans fólks var lokið í morgun.

Starfsfólk í velferðarþjónustu hefur verið undir miklu álagi síðan kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi og þurft að gæta sín sérstaklega vel vegna skjólstæðinga sinna og til að halda þjónustunni gangandi allan sólarhringinn. „Þetta hefur gengið vel enda hefur velferðarsvið frábæru fólki á að skipa, bæði starfsfólki og stjórnendum. En það er gott að maður fer vonandi að sjá fyrir endann á þessu,“ sagði Sigmar Þór.