Stöðugildi í leikskólum Reykjavíkur í samræmi við þarfir  

Leikskólabörn

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir færri stöðugildum í leikskólum á næsta ári en fyrri ár. Ástæða þess er að starfsmönnum var bætt við á leikskólum borgarinnar vegna sóttvarnarreglna sem gerðu ráð fyrir hólfun á vinnustöðum. Þess vegna fjölgaði starfsfólki leikskóla á árunum 2020-2022 en dregst nú lítið eitt saman milli ára.    

Leikskólar Reykjavíkur hafa eins og aðrar stofnanir borgarinnar þurft að glíma við óvenjulegar aðstæður í starfsemi sinni síðustu tvö árin sökum heimsfaraldurs kórónaveiru. Til að halda leikskólum opnum og tryggja þjónustu við barnafjölskyldur í borginni, var m.a. farið í hólfanir og aðrar aðgerðir sem leiddu til þess að fjölga þurfti starfsmönnum umfram það sem hefðbundið er í venjulegu árferði.  

 Það er mat skóla- og frístundasviðs að leikskólar Reykjavíkurborgar hafi á árinu 2021 verið yfirmannaðir um 1 til 2 stöðugildi á leikskóla en samtals eru borgarreknir leikskólar 68. Á þessu ári var jafnframt yfirmönnun vegna hólfunar og aðgerða í leikskólum vegna Covid í upphafi árs og eru vísbendingar um að ennþá sé eitthvað um yfirmönnun sé tekið mið af rekstrar- og mönnunarlíkani leikskóla. Þess má geta að rekstrar- og mönnunarlíkan fyrir leikskóla Reykjavíkurborgar er í endurskoðun og mun það skila nákvæmari mönnunartölum í byrjun næsta árs.  

 Vegna væntanlegrar fjölgunar barna á leikskólum og fjölgun leikskólaplássa mun áætlun ársins 2023 taka breytingum. Sem stendur byggir áætlunin á fjölda barna í leikskólum borgarinnar í byrjun september 2022. Allar viðbætur, svo sem fjölgun starfsmanna og breytingar á barnafjölda, bætast við grunnáætlun þegar þær raungerast t.d. þegar nýr leikskóli opnar. Leikskólar Reykjavíkur eru mannaðir í samræmi við þarfir sem taka mið af aldri barna og enginn afsláttur er gefinn af þjónustu sem snýr að umönnun þeirra. 

Samkvæmt upplýsingum skóla- og frístundasviðs sem kynntar hafa verið í borgarráði þá er verið að yfirfara mönnun allra stofnana í samanburði við mönnunarlíkön og fjárheimildir. Verkefnið þarfnast greinargóðrar yfirferðar. Vinna við útfærslu á nýju reiknilíkani fyrir leikskóla er á lokametrunum og í yfirferð hjá skóla- og frístundasviði og fjármála- og áhættustýringu. Búist er við að líkanið fari í umfjöllun í borgarráði strax í janúar 2023.