Stelpur skrifa, filma og klippa burt kynjahallann

Skóli og frístund

""

Stelpur úr 8. og 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkur eru þessa vikuna á skemmtilegu námskeiði í Norræna húsinu þar sem þær læra undirstöðuatriði í kvikmyndagerð.

Námskeiðið, sem haldið er undir fyrirsögninni Stelpur filma!, er nú haldið í þriðja sinn en að því koma margir reyndustu handritshöfundar og kvikmyndagerðarmenn landsins. Verkefnið er unnið í samstarfi Mixtúru margmiðlunarvers og alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík (RIFF).  Barnamenningarsjóður styrkir verkefnið. 

Námskeiðið Stelpur filma! er liður í því að rétta af kynjahallann sem ríkir í kvikmyndagerð á Íslandi, en margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til þess að prófa sig áfram í greininni og láta rödd sína heyrast. Stelpur filma! vilja leiðrétta þennan kynjahalla með því að bjóða upp á rými þar sem stelpur hafa næði til þess að þroska sína hæfileika og mynda tengsl við kvenkyns fyrirmyndir. 

Stelpur filma! byggir á hugmyndafræði rokkbúðanna Stelpur rokka! sem stofnaðar voru 2012 og ríkir fordómaleysi og frelsi á námskeiðinu og er litið á mistök sem tækifæri til að læra að gera betur. 

Meðal kennara eru Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur, Nanna Kristín Magnúsdóttir leikkona, Valdís Óskarsdóttir klippari, Erla Stefánsdóttir kvikmyndagerðarkona, Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri og Margrét Jónasar framleiðandi.

Hlekkur á myndefnið verður settur á www.listfyriralla.is, www.riff.is og www.mixtura.is.