Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, vígði í dag steinbryggjuna á skáldatorgi á mótum Hafnarstrætis og Tryggvagötu.
Bryggjan er eitt helsta kennileiti borgarinnar en hún er eitt merkasta mannvirki Reykjavíkurhafna og á rætur að rekja til gömlu bæjarbryggjunnar sem var byggð í Reykjavík 1884.
Steinbryggjan var mikilvæg samgöngubót fyrir Reykjavík allt frá því hún leysti gömlu trébryggjurnar af hólmi undir lok 19. aldar þar til hún hvarf undir landfyllingu árið 1940. Hún þjónaði Reykvíkingum vel sem hliðið að bænum áratugum saman. „Steinbryggjan gegndi ótrúlega mikilvægu hlutverki við þróun borgarinnar. Við sjáum að mannfjöldi jókst stórum skrefum ár frá ári í Reykjavík og var það ekki síst vegna þess að við vorum loksins búin að fjárfesta í almennilegri höfn. Nú gegnir Steinbryggjan hinsvegar öðru hlutverki og er orðin að áfangastað í borginni þar sem maður getur setið í skjólinu innan um nýju húsin á Hafnartorgi, fengið sér kaffibolla og notið borgarlífsins,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri við vígslu bryggjunnar.
Þegar unnið var að gerð Hafnartorgs varð ljóst hversu heilleg og falleg bryggjan var og það varð úr að borgaryfirvöld sammæltust um að varðveita hana og gera sýnilega.
Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar sá svo um að sníða henni þann búning sem hún er í núna með tilsögn frá Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafni. Hönnun hins nýja torgs var í höndum Landmótunar, lýsing var í höndum Mannvits og Faxaflóahafnir sáu um menningarmerkingar.
Við hönnunina var unnið með efni sem tengjast hafinu. Setþrep og tröppur eru úr bryggjutimbri og grágrýti var notað í kanta og þrep.
Á torginu við bryggjuna er ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur Vetur meitlað í stein við skáldabekk. Bekkurinn tengist rafrænum kóða sem gera snjallsímaeigendum kleift að hlusta á ljóðalestur. Bókmenntaborgin Reykjavík stýrir því verkefni, sem snýst um að færa orðlistina út á stræti og torg, og gera hana sýnilega sem varanlegan hluta af umhverfinu.
Steinbryggjan er góð viðbót í menningarlíf miðborgarinnar og hægt er að staldra þar við á ferð sinni um sumarborgina.