Steinahlíð fagnar sjötugsafmæli

Skóli og frístund

""

Leikskólinn Steinahlíð, sem hefur starfað samfellt í sama húsnæði frá upphafi, fagnaði í dag 70 ára afmæli. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og aðrir góðir gestir fögnuðu stórafmælinu með börnum, foreldrum og starfsfólki Steinahlíðar í dag, en leikskólinn er meðal þeirra elstu í borginni. Börnin sungu afmælissöng úti í blíðviðrinu og fengu svo súkkulaðiköku og annað góðgæti.  Í gamla skólahúsinu í Steinahlíð sýndu börnin ýmis listaverk og þar voru einnig sýndar gamlar ljósmyndir úr starfi skólans, sem á langa og merka sögu. 

Gamla leikskólahúsið í Steinahlíð var byggt árið 1932 og var í einkaeigu þar til það var gefið Barnavinafélaginu Sumargjöf árið 1949 með því fororði að þar yrði barnaheimili sem hefði ræktun og umhverfisstarf í forgrunni. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum af Sumargjöf á árinu 1978 og síðan hefur verið rekinn þar leikskóli sem nú fagnar sjötíu ára afmæli. Þar er hefðinni samkvæmt mikil áhersla á ræktun og sjálfbærni enda leikskólalóðin stór og hentar vel til umhverfismenntunar. 

Í Steinahlíð dvelja að jafnaði 53 börn, bæði í gamla húsinu og tveimur færanlegum skólastofum. Leikskólastjóri er Bergsteinn Þór Jónsson.