Stefna um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík

Skemmtiferðaskip við höfn í Reykjavík
Skemmtiferðaskip við höfn í Reykjavík séð úr lofti

Stefnumótun hafin

Vinna er nú hafin á vegum Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna er varðar mótun stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík. Framkvæmdaraðili verkefnisins er Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins. Markmið verkefnisins er að skapa sameiginlega sýn hagaðila sem mun nýtast sem grunnur við frekari skilgreiningu aðgerða við álagsstýringu sem hefur áhrif á samfélag, náttúru, efnahag og nærumhverfi.

Verkefnið styður við aðgerð C.7 í drögum að tillögu að þingsályktunartillögu á vegum stjórnvalda um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030 sem snýr að samstarfi um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða. Markmiðið með þeirri aðgerð er að móttaka skemmtiferðaskipa skapi verðmæti í sátt við samfélag og náttúru. 

Hver er sameiginleg sýn um þolmörk og móttöku farþega?

Skipaður hefur verið stýrihópur með fulltrúum helstu hagaðila auk verkefnahóps sem mun hafa umsjón með framkvæmd verkefnisins. Í stýrihópnum sitja: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (form. borgarfulltrúi), Hildur Björnsdóttir (borgarfulltrúi), Gunnar Tryggvason (hafnarstjóri), Svanhildur Konráðsdóttir (menning), Kristófer Oliversson (ferðaþjónusta), Björn Ragnarsson (ferðaþjónusta), Pétur Rúnar Heimisson (verslun og þjónusta), Lilja Sigrún Jónsdóttir  (íbúasamtök Laugardals) og Sigrún Tryggvadóttir (íbúasamtök miðborgarinnar, varam.).

Um er að ræða fyrsta verkhluta af þremur þar sem afurðin er stefnuskjal hagaðila sem felur í sér sameiginlega sýn um þolmörk og hvernig staðið skuli að móttöku farþega sem koma með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur.  Aðrir verkhlutar munu fylgja í kjölfarið sem fela í sér mótun aðgerðaáætlunar, innleiðingu og framkvæmd.