Stefna Reykjavíkurborgar um velferðartækni | Reykjavíkurborg

Stefna Reykjavíkurborgar um velferðartækni

miðvikudagur, 7. mars 2018

Borgarstjórn hefur samþykkt stefnu á sviði velferðartækni til ársins 2022.  Velferðarsvið borgarinnar leggur ríka áherslu á að nýta margvíslega tækni og snjalllausnir sem auðvelda fólki að búa á eigin heimili og við betri lífsgæði þrátt fyrir öldrun, fötlun eða veikindi.

  • Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, segir gestum hvernig nýta megi velferðartækni í matarþjónustu.
    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, segir gestum hvernig nýta megi velferðartækni í matarþjónustu. frá vinstri, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri heimaþjónustu, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri í Kópavogi og Unnur Ingólfsdóttir, félagsmálastjóri í Mosfellsbæ.
  • Þórhildur Guðrún Egilsdóttir,  deildarstjóri heimaþjónustu, segir frá velferðartækni á fundi um miðlun á velferðarsviði.
    Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri heimaþjónustu, segir frá velferðartækni á fundi um miðlun á velferðarsviði.

 Stefna um velferðartækni hefur það að leiðarljósi að einstaklingur geti verið virkur þátttakandi í samfélaginu, eins lengi og kostur er.

Markmiðið er skilvirkari þjónusta og greiðari samskipti við notendur, aðstandendur og starfsmenn. Einnig að rjúfa félagslega einangrun, auka virkni, vinnuvernd og miða þjónustu að þörfum hvers og eins.

Stofnuð verður velferðartæknismiðja til að framfylgja stefnunni og verið er að leggja lokahönd hönd á ráðningu annars af tveimur verkefnastjórum. Í prófunum á nýjum lausnum verður haft náið samráð við notendur um nytsemi tækninnar.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar mun leiða innleiðingu stefnunnar og áframhaldandi uppbyggingu í tæknilausnum í þverfaglegri samstarfi við háskólasamfélagið, önnur fagsvið borgarinnar, stofnanir og sveitarfélög. Þá tekur sviðið þátt í norrænu samstarfi um velferðartækni.

Stefnan eins og hún var lögð fyrir borgarráð en hún verður sett í hönnun og gefin formlega út seinna.