Starfsstöðum fjölgað í tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku

Stjórnsýsla Velferð

""

Borgarráð samþykkti í dag tillögu um að fara í annan  áfanga tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar en í þeim áfanga verður starfsstöðum fjölgað. Verkefnið þykir hafa tekist vel.  

 

Tilraunaverkefni um styttingu vinnuviku hjá Reykjavíkurborg, sem staðið hefur síðan 2015, hefur gefist vel og haft jákvæð áhrif á starfsfólk. Stýrihópur um verkefnið leggur til að farið verði í næsta áfanga. Þetta þýðir að starfsstöðum hjá borginni verður gefinn kostur á að sækja um þátttöku. Leggja þarf fram rökstuðning fyrir þátttöku í verkefninu og hvernig hægt sé að útfæra styttingu á vinnutíma með fækkun vinnustunda niður í allt að 37 klukkustundir á viku án þess að skerða vinnuframlag eða beina þjónustu.

„Ég er afskaplega glaður með þá forystu sem Reykjavíkurborg hefur tekið í þessum efnum.  Þetta mun vonandi hafa mikil áhrif og stuðla að fjölskylduvænni vinnumarkaði með styttri heildarvinnutíma  þegar horft er einhver ár fram í tímann,“ segir Magnús Már Guðmundsson, formaður stýrihópsins.

Lagt er til að tilraunatímabilið hefjist 11. febrúar 2018 og standi fram til 31. ágúst 2019. Starfsstaðir sem nú þegar taka þátt í verkefninu fá framlengingu til 11. febrúar 2018 en áframhaldandi þátttaka miðast við 37 klukkustunda vinnuviku. Tilraunaverkefnið nær nú til fjölbreytilegra vinnustaða hjá Reykjavíkurborg.

Dregur úr andlegu og líkamlegu álagi

Skrifstofa þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnavernd Reykjavíkur voru fyrstu starfsstaðirnir til að taka  þátt í verkefninu en haustið 2016  bættust við leikskólinn Hof, Laugardalslaug, heimaþjónusta- og heimahjúkrun í efri byggð auk hverfis- og verkbækistöðva borgarinnar. Markmiðið með fjölgun vinnustaða var að dýpka rannsóknina og kanna möguleg áhrif styttingar vinnuvikunnar á ólíkum starfsstöðum.

Á starfsstöðunum tveimur sem hafa verið lengst í verkefninu starfa nær eingöngu konur og því þótti það bæta talsvert miklu við verkefnið að fá inn starfsstaði þar sem karlmenn væru í meirihluta. Eins þótti nauðsynlegt að bæta við starfsstað á skóla-og frístundasviði sem er langstærsta svið borgarinnar. Einnig var talið verkefninu til tekna að bæta við starfsstöðum sem starfa á vöktum, en heimaþjónusta- og heimahjúkrun í efri byggð og Laugardalslaugin uppfylltu það skilyrði.  Hafa um 300 starfsmenn tekið þátt í tilrauninni en vinnustundum hefur verið fækkað um fjórar alls staðar en fimm hjá þjónustumiðstöðinni.

Niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal starfsmanna benda til jákvæðra áhrifa vegna styttingarinnar og sýna að hún hafi þau áhrif að draga úr andlegum og líkamlegum einkennum álags. Að auki eykst starfsánægja á öllum starfsstöðum fyrir utan einn.

Þá er það mat stýrihópsins að niðurstöðurnar séu afar jákvæðar og því mikilvægt að þróa tilraunaverkefnið áfram.  Stýrihópurinn telur mikilvægt að kanna með markvissum hætti hvort að styttri vinnuvika hafi jákvæð áhrif á mönnun starfsstaða sem glíma við manneklu í dag.

Stýrihópurinn leggur til að tekið verði upp samstarf við Félagsvísindastofnun um utanumhald rannsókna tengdu verkefninu.