Starfsfólk Reykjavíkurborgar ánægt í starfi

Atvinnumál

Tveir starfsmenn sorphirðu draga tunnur merktar borginni, snjór úti.

Ný viðhorfskönnun meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar sýnir að 87% starfsfólks Reykjavíkurborgar er ánægt í starfi. Niðurstöður sýna að á heildina litið upplifir starfsfólk starfsstaðinn Reykjavíkurborg sem góðan og metnaðarfullan vinnustað sem hefur góða ímynd og góðan starfsanda.

Borgin tók þátt í könnuninni Stofnun ársins sem lögð var fyrir í október og nóvember á síðasta ári. Alls var könnunin send út til ríflega 33 þúsund þátttakenda og af þeim svöruðu 16.945, þar af 5.237 úr röðum starfsfólks Reykjavíkurborgar.

Á heildina litið eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar og hækkun á öllum þáttum fyrir borgina. 87% starfsfólks Reykjavíkurborgar líður vel í starfi, 90% telja að allt starfsfólk njóti jafnræðis óháð aldri, kyni, uppruna, kynhneigð,  trúar- eða lífsskoðunum og 85% starfsfólks segist vera stolt af starfsstaðnum sínum.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar virðist ánægt með stjórnun á sínum starfsstað. 80% telja að vinnustað sínum sé vel stjórnað, 83% segjast bera fullt traust til stjórnenda á sínum starfsstað og 84% segjast fá stuðning og hvatningu frá næsta yfirmanni. Þá er 66% starfsfólks ánægt með styttingu vinnuvikunnar.

Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri á mannauðs- og starfsumhverfissviði, segir niðurstöður könnunarinnar gefa góða innsýn í afstöðu starfsfólks til Reykjavíkurborgar. „Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið markvisst með niðurstöður viðhorfskönnunar til að greina styrkleika og áskoranir í starfsumhverfinu og stjórnun starfsstaða og niðurstöðurnar sýna að það hefur skilað sér. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð og það eru ákveðin sóknarfæri til að skapa enn betra starfsumhverfi fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt starfsfólk sem vinnur í þágu borgarbúa“.

Reykjavíkurborg hefur mælt viðhorf starfsfólks til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta reglulega frá árinu 2005. Starfsstöðum borgarinnar verða kynntar niðurstöður fyrir hvern starfsstað.

Nánar um niðurstöður.