Staðbundið Legionella-smit í tveimur húsum við Vatnsholt

Heilbrigðiseftirlit

Vatnsholt A2F arkitektar
Vatnsholt

Heilbrigðieftirlit Reykjavíkur hefur staðfest að Legionella eða hermannaveikissmit sem greindist í húsi í Reykjavík í júní er bundið við tvö hús og hefur ekki borist úr dreifikerfi kalda vatns. 

Í lok maí fór starfsfólk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í sýnatöku í íbúð í húsnæði í Vatnsholti að beiðni sóttvarnarlæknis vegna gruns um vöxt Legionella bakteríu í baðvatni, eftir að einstaklingur greindist með hermannaveiki. Sýnatökur staðfestu vöxt í þeim sýnum.

Niðurstöður sýnatöku liggja fyrir alla jafna 10 dögum eftir að sýni eru tekin en mögulegt er að frumniðurstaða eftir 4 daga geti staðfest að vöxtur sé til staðar. Þann 4. júní þegar frumniðurstöður lágu fyrir voru íbúar upplýstir um stöðu mála.

Þá var farið í frekari sýnatökur til að kanna hvort smit væri í fleiri íbúðum. Niðurstöður staðfestu að smit væri í fleiri íbúðum í húsinu.  Fleiri sýnatökur voru gerðar dagana 11. og 19. júní til að kanna hvort smit gæti mögulega verið að berast úr dreifikerfi kalda vatns. Niðurstöður sýndu að svo var ekki og er því um staðbundið smit að ræða.  

Þann 1. júlí voru einnig tekin sýni í öðru húsi. Var það gert þar sem húsin eru sambærileg en á þeim tímapunkti voru ekki vísbendingar um smit í því húsi. Frumniðurstöður úr þeirri sýnatöku staðfestu smit í báðum húsum og hafa íbúar í seinna húsinu einnig verið upplýstir. 

Smit getur komið upp ef vatnskerfi eru ekki notuð

Fullfrískir ungir einstaklingar geta fengið bakteríuna í öndunarvegi án þess að veikjast og er hún hættulítil í þeim tilvikum. Alvarleg veikindi verða yfirleitt ekki nema hjá einstaklingum með undirliggjandi áhættuþætti.  

Legionella smit getur komið upp ef vatnskerfin í íbúðinni eru ekki notuð í nokkra mánuði svo sem vegna lengri dvalar utan heimilis. 

Hreinsunaraðgerðir undirbúnar 

Farið var í aðgerðir til útskolunar á lagnakerfi í húsinu þar sem smit greindist fyrst þann 24. júní samanber leiðbeiningar í gr. 14.5.10 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sú aðgerð bar árangur en ekki fullnægjandi og þarf að koma til frekari aðgerða þar. 

Unnið hefur verið að undirbúningi ítarlegri hreinsunaraðgerða í báðum húsum og er stefnt að því að hreinsiaðgerðum ljúki í þessari viku.