Í miðbæ Reykjavíkur hefur skapast áhugavert og fallegt samfélag í kringum svokallaðan frísskáp. En þá vaknar eflaust spurningin, hvað er frísskápur?
Freedge.org er alþjóðleg hreyfing hvers markmið er að draga úr matarsóun og byggja upp sterkara samfélag í kringum það að deila umframmat í gegnum frísskápa. Vinirnir Kamila Walijewska og Marco Pizzolato settu upp ísskáp í þessum tilgangi við Bergþórugötu 20 í sumar og hafa viðtökurnar verið framar vonum. „Við settum kælinn upp 29. júní og stofnuðum Facebook-síðu. Fyrsta daginn urðu meðlimirnir 200 talsins, tveimur vikum síðar voru þeir orðnir 500 og nú erum við 2.400 manna samfélag,” segir Kamila og brosir. „Okkur finnst frábært að sjá verkefnið öðlast eigið líf. Fólk lætur orðið berast, kemur færandi hendi með mat og stundum heyrum við af fólki sem hittist við kælinn og kynnist þannig. Við sjáum mikla möguleika á að tengja fólk saman og efla um leið meðvitund um matarsóun og þar með um jörðina okkar.“
Viðtökur fram úr væntingum
Kamila og Marco hafa bæði búið á Íslandi í um tvö ár. Kamila kemur frá Póllandi og á sér bakgrunn í alþjóðaviðskiptum en Marco er verkfræðingur frá Sviss. Þau eru náttúruelskendur og hafa brennandi áhuga á því að vernda umhverfið og draga úr sóun. Marco bendir á að þar sem Ísland sé eyja skipti miklu máli að draga úr matarsóun enda sé matur að mestu leyti innfluttur og því með stórt kolefnisspor. Hann er hluti teymis sem sigraði nýlega fyrir hönd Íslands í Cassini-hakkaþoninu með hugmynd um hvernig nota mætti gervitunglamyndir til að meta landrof og landhnignun. Hugmyndin að frísskápnum kviknaði hins vegar þegar hann og Kamila tóku þátt í nýsköpunarviðburðinum Hacking Hekla, þar sem horft var sérstaklega til matartengdrar nýsköpunar. „Við vissum að það væru til frísskápar en vissum ekki af vinsældum þeirra erlendis. Það var hvetjandi að sjá sambærileg verkefni annars staðar og það gaf okkur trú á að þetta gæti líka virkað á Íslandi. Við litum á þetta sem tilraun og bjuggumst ekki við svona frábærum viðtökum.“
Sælt að gefa og þiggja
Frísskápurinn stendur fyrir utan hús Andrýmis við Bergþórugötu 20, í kassa sem byggður var úr afgangstimbri. Andrými er róttækt félagsrými sem útvegar aðstöðu fyrir grasrótarhópa og einstaklinga til að hittast og skipuleggja baráttu sína fyrir auknu jafnrétti og frelsi. „Við komumst að því að í Andrými væru haldnir viðburðir þar sem fólk eldaði saman úr afgöngum og þar eru líka fríir matarmarkaðir alla föstudaga. Okkur fannst þetta því tilvalinn staður fyrir frísskápinn og með honum hefur fríi matarmarkaðurinn í raun teygt sig yfir alla vikuna,“ segja þau. „Frísskápurinn er alltaf opinn og allir mega nýta sér hann. Það er erfitt að áætla magnið af mat sem fer í gegnum frísskápinn en hann er fylltur og tæmdur daglega. Það er svipaður fjöldi sem gefur í hann og tekur úr honum og þetta snýst ekki bara um að deila og bjarga mat, heldur einnig um að tengja fólk saman. Maður fær ekki bara ókeypis mat heldur fylgir matnum góðvild þess sem gefur hann hverju sinni.“
Tekið er við flestum tegundum matar í frísskápinn en mælt er gegn því að deila hráum matvörum eins og kjöti, fiski, eggjum og mjólk af heilbrigðisástæðum. Heimatilbúinn matur er velkominn sé hann merktur með dagsetningu, innihaldi og mögulegum ofnæmisvöldum en áfengi er afþakkað. „Það kemur fyrir að einhverjir komi og tæmi frísskápinn og við vitum að það verður alltaf til fólk sem misnotar aðstæður og skilur ekki kærleikann í því að deila (e. sharing is caring). En þetta er lítill minnihluti og vonandi skilja þessir einstaklingar á endanum um hvað þetta snýst,” segja Kamila og Marco. Flestar sögur sem þau hafa að segja af verkefninu snúast þó um náungakærleika. „Okkur langar að nefna Rósu Björg Jónsdóttur, sem eldar súpur til að bjarga afgangsgrænmeti og kemur með þær í ísskápinn annan hvern dag. Líklega þekkja allir meðlimir hópsins hana og hennar stóra hjarta. Fólk passar að skila krukkunum hennar og margir útvega góðar slíkar svo hún hafi alltaf ílát undir súpurnar sínar,“ segja þau. „Einn maður kemur síðan með kattamat annan hvern dag og stundum sjáum við ungbarnaþurrmjólk í frísskápnum. Það gleður okkur því það er falleg tilhugsun að yngsta kynslóðin sé þannig líka hluti af þessu samfélagi okkar í gegnum góðhjartaða foreldra sína.“
Ótrúlegt magn af mat fer í ruslið
Kamila og Marco sýna í verki að þeim er umhugað um umhverfið og langar að gera jörðina að betri stað fyrir síðari kynslóðir. „Við lifum meðvituðu lífi; erum mínímalistar og grænmetisætur og reynum alltaf að kaupa notað til að sporna gegn sóun,“ segja þau. „Við erum líka virkir gámagramsarar (e. dumpster divers) en það er fólk sem leitar að mat í gámum matvöruverslana. Mikið magn matar lendir í ruslinu af ýmsum ástæðum, t.d. af því hann er útrunninn, það hefur komið ný sending, geymslupláss er af skornum skammti o.s.frv. Það er ótrúlegt hversu miklu er hent af fullkomlega nothæfum mat. Markmið okkar er að auka meðvitund enda leiða fæstir hugann að þessu og taka mat sem sjálfsögðum hlut. Við áttuðum okkur samt ekki á umfangi vandamálsins fyrr en við sáum þetta með eigin augum og það er sláandi að sjá hvað gengur á á bak við tjöldin.“
Frísskápurinn á Bergþórugötu er sá nyrsti í heiminum, svo vitað sé til. Þar sem Íslendingar hafa tekið framtakinu vel ætla vinirnir áfram að breiða út boðskapinn. Til stendur að setja upp frísskáp á Höfn í samvinnu við heimafólk og leitað er að stað fyrir frísskáp á Selfossi. „Frísskápurinn í Reykjavík hófst sem tilraunaverkefni og við erum ennþá að meta áhrif vetrarins á skápinn og hvort einhverra endurbóta er þörf. Markmiðið er þó að stækka netið og við hvetjum fólk til að setja upp sína eigin frísskápa, innan- eða utandyra. Samfélagið sem skapast í kringum þá er svo gott að þeir sjá eiginlega um sig sjálfir svo það erfiðasta er oft að finna staði fyrir frísskápana. Við hvetjum því fólk til að setja slíka kæla upp t.d. í háskólum, á skrifstofum, bókasöfnum, veitingastöðum o.s.frv. Við munum glöð leggja hjálparhönd ef haft verður samband við okkur.“