Sporlof í borginni

Menning og listir Mannlíf

""

Orðið Sporlof sigraði í keppni Höfuðborgarstofu um íslenskt orð yfir Staycation.

Staycation sem notað hefur verið erlendis og er samsuða orðanna að vera, stay og orlof, vacation. Vinningstillagan, sporlof, er samsett orð sem lýsir því að aðeins þurfi að taka örfá spor til að komast í orlof og gefa sér tíma til að upplifa allt sem borgin hefur upp á að bjóða.

Það var góð þátttaka í orðakeppninni en tæplega 2.500 tillögur bárust í leitinni að íslensku orði yfir enska hugtakið Staycation.  Eftir vandlega yfirlegu komst fimm manna dómnefnd að þeirri niðurstöðu að nýyrðið sporlof kæmist næst því að fanga þessa hugsun á skemmtilegan hátt.

Nýyrðið sporlof á Jón Oddur Guðmundsson, sem sendi tillöguna inn til gamans, og má nefna að hann var sá eini sem var með þetta orð.  Hann hlýtur í verðlaun glæsilegt sporlof í borginni með gistingu og morgunverði fyrir tvo á Hótel Borg, 3ja rétta kvöldverð fyrir tvo á ROK Restaurant, Bröns fyrir tvo á Kol Restaurant, tvo miða í FlyOver Iceland, í Perluna og Borgarkort fyrir tvo sem gilda í 48 tíma. Við óskum Jóni Oddi góðs sporlofs. Auk Jóns Odds fá tveir aðilar aukaverðlaun sem eru tvö Borgarkort sem gilda í 48 tíma.

Með þessari keppni er ætlunin að styðja við fyrirtæki í borginni með því að hvetja almenning til að fara í frí í Reykjavíkurborg og njóta alls þess sem hún hefur upp á að bjóða m.a. hótel, veitingastaði, verslanir, viðburði, söfn og afþreyingu.

Keppnin er hluti að stærri herferð Höfuðborgarstofu fyrir innanlandsmarkað þar sem kynnt verður allt það sem borgin  hefur að bjóða vetur, sumar, vor og haust.