Spennandi tillaga valin við Leirtjörn

Skipulagsmál

Tillaga Leirtjörn

Tillagan Kynslóð eftir kynslóð varð fyrir valinu í hugmyndaleit um skipulag við Leirtjörn í Úlfarsárdal. Þrír hópar voru valdir til að senda inn tillögur.

Höfundar tillögunnar eru Eva Huld Friðriksdóttir og Magnea Þ. Guðmundsdóttir hjá Teiknistofunni Stiku. Aðalráðgjafar voru Þórhildur Þórhallsdóttir, Landmótun. Daði Baldur Ottósson og Nína Gall Jörgensen hjá Eflu. Aðrar tillögur sem sendar voru inn voru frá Marimo arkitektum og Yddu arkitektum.

Markmið hugmyndaleitar almennt er að kalla fram bestu mögulegu lausnir að uppbyggingu á hverjum stað. Verkefnið gengur út að skapa hugmyndafræðilega heildarsýn fyrir umrætt svæði sem yrði síðan  þróað áfram í deiliskipulagsgerð. 

Áhersla á fjölbreytni í íbúðargerðum

Gerð var umsögn um hverja tillögu ásamt stigagjöf og fékk þessi tillaga flest stig. Tillagan Kynslóð eftir kynslóð leggur áherslu á fjölbreytni í íbúðargerðum og búsetuformi. Gert er ráð fyrir hjúkrunarrýmum, félagsheimili, íbúðakjarna fyrir fatlaða, leikskóla og lífsgæðakjarna í bland við íbúðir í fjölbýlis-,rað- og sambýlishúsum. 

Arkitektúrinn er spennandi að mati valnefndar, mikið af mismunandi byggingum og skemmtilegt hvernig hönnuðir vinna með fjölbreytt þakform. Einnig eru hugmyndir um nýtingu á bílastæðahúsi spennandi meðal annars hvernig gróðurhús og önnur þjónusta tengist við þau. 

Íbúðafjöldi verður 362 ásamt 50 hjúkrunarrýmum. Byggingamagn: 48.060 m2.

Hverfi fyrir fólk á öllum aldri

Leirtjörn verður þá hverfi þar sem fólk á öllum aldri býr. Nálægð við náttúruna, fjölbreytt samfélag, skjólgóð dvalarsvæði og gönguleiðir munu einkenna hverfið. Ólíkar kynslóðir geta búið í sama hverfi eða sama húsi. Þannig færist þekking á milli og öll leggjast á eitt við hversdaginn. Þetta er skipulag sem ýtir undir félagslega blöndun og samskipti íbúa.

Í hverfinu er að finna fjölbreytt búsetuform, fjölbreyttar stærðir íbúða og mismunandi húsagerðir.  Hjúkrunarrými, leikskóli og félagsheimili er kjarni þar sem fólk hittist. Þessir snertipunktar og skjólgóð dvalarsvæði er það sem gerir hverfi að samfélag. Skipulagið tekur mið af núverandi byggð, náttúrulegum gæðum og góðum tengingum við þjónustu og útivistarsvæði.

Reitir raðast upp í kringum græna geisla sem allir tengjast útivistarsvæði við tjörnina. Geislarnir eru einnig tengdir innbyrðis með göngu- og hjólastígum og setja þannig vistvæna ferðamáta í forgang. Þeir mynda einnig net blágrænna lausna sem renna í Leirtjörn og styrkja endurheimt vistkerfis með birkiskógum, holtagrjóti og víði sem gefur hverfinu sérkenni og styrkir hverfisandann. 

Næstu skref

Næstu skref felast í því að vinna að deiliskipulagsgerð í samráði við þá sem hafa fengið lóðarvilyrði. Stefnt er að því deiliskipulag verði tilbúið haustið 2024.