Spennandi og þroskandi frístundastarf verðlaunað

Skóli og frístund

Hvatningarverðlaun frístundastarfs Skýjaborgir

Frístundaheimilið Skýjaborgir með tónlistarverkefni, Jaðarklúbbarnir í Sigyn og samskiptasáttmáli fatlaðra unglinga í Öskju voru þau verkefni sem hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2024 fyrir framúrskarandi frístundastarf. Þá hlaut Regnabogahlaup Tjarnarinnar viðurkenningu fyrir sýnileika hinseginleikans í barnastarfi. Verðlaunin voru veitt í gær.

Öðlast trú á eigin getu

Tónlistarverkefnið í frístundaheimilinu Skýjaborgum leyfir sköpunarkrafti barnanna að njóta sín í fjölbreyttu og skapandi starfi. Í því er tekist á við skemmtilegar áskoranir og þar sem börnin rækta með sér trú á eigin getu. Verkefnið er yfirgripsmikið og gefur börnunum innsýn inn í hvernig afrakstur af svona skapandi vinnu getur verið. Börnin fengu tækifæri til þess að taka þátt í sköpun tónlistar, myndlistar og að skipuleggja útgáfuhátíð. Dómnefnd mat sem svo að hér sé um fyrirmyndarverkefni að ræða sem augljóslega sé unnið af miklum metnaði og hafi gefið barnahópnum í Skýjaborgum mikið. 

Hvatningarverðlaun frístundastarfs Skýjaborgir2

Tækifæri til finna uppbyggilegt áhugamál

Jaðarklúbbarnir í Sigyn eru frábært og einstakt framtak í sértæku hópastarfi félagsmiðstöðva í Reykjavík þar sem unglingunum er boðið að kynnast fjölbreyttum og spennandi jaðaríþróttum. Klúbbarnir höfða sérstaklega til unglinga sem eru leitandi í frítíma sínum og gefst þarna tækifæri til þess að finna sér uppbyggileg áhugamál, valdeflast og styrkja sjálfsmynd sína. Sérstaklega er það til eftirbreytni hvernig klúbbarnir hafa verið aðlagaðir að þörfum mismunandi hópa innan unglingahópsins sem sækir Sigyn svo öll sem hafa áhuga finni sig í starfinu.

Hvatningarverðlaun frístundastarfs Jaðarklúbbur Sigyn í Rimaskóla

Fundu leiðir til að leysa úr ágreiningi

Samskiptasáttmáli fatlaðra unglinga í Öskju er frábært framtak félagsmiðstöðvarinnar til þess að bregðast við þörf í unglingahópnum. Félagsmiðstöðin bjó til kringumstæður þar sem ungmennin fengu að ræða sig í gegnum margvíslegan ágreining og fundu leiðir til þess að leysa úr honum sjálf. Verkefnið vatt svo uppá sig þar sem úr varð samskiptasáttmáli sem gilti bæði í félagsmiðstöðinni og á samfélagsmiðlum. Taldi dómnefndin til fyrirmyndar að gefa ungmennum tækifæri til þess að ræða um samskipti á þennan hátt og hafa þannig áhrif á reglur í sínu umhverfi. Verkefnið tryggði að öll áttu hlutdeild í reglunum og skildu hvernig átti að fara eftir þeim.

Hvatningarverðlaun frístundastarfs Askja

Fagna fjölbreytileikanum og tryggja sýnileika

Frístundaheimili Tjarnarinnar fá sérstaka viðurkenningu í ár fyrir sýnileika hinseginleikans í barnastarfi með Regnbogahlaupinu sem öll frístundaheimili Tjarnarinnar taka þátt. Þetta eru frístundaheimilin Draumaland, Eldflaugin, Frostheimar, Skýjaborgir, Halastjarnan og Selið. Dómnefnd mat þetta sem fyrirmyndarverkefni sem vert sé að hrósa. Frístundaheimili Tjarnarinnar hafi lagt mikla vinnu í að fagna fjölbreytileikanum í aðdraganda Regnbogahlaupsins og tryggja bæði sýnileika hinseiginleikans og fræðslu um málefnið til barnanna. Frístundaheimilunum hefur þannig tekist að sinna málefninu að mikilli alúð og gera úr því gleðistund sem lifir í minningu allra barna í starfinu og jafnvel fjölskyldum þeirra.

Hvatningarverðlaun frístundastarfs frístundaheimili Tjarnarinnar