Spennandi lokakvöld Skrekks nálgast

Skóli og frístund

Skrekkur 2023

Átta skólar eru komnir í úrslit Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna. Um 700 ungmenni stigu á svið fyrir hönd 24 skóla í þremur undankeppnum í vikunni og sýndu glæsileg frumsamin atriði, samin sérstaklega fyrir keppnina og stóra svið Borgarleikhússins

Ástæða er til að þakka öllum þátttakendum fyrir frábæra frammistöðu í ár og óska aðstandendum úrslitaatriðanna innilega til hamingju með árangurinn.

Undanúrslitakvöldin þrjú fóru fram á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í þessari viku og komust sex skólar áfram í úrslit: Réttarholtsskóli með atriðið Í eigin heimi, Háteigsskóli með atriðið Fjörutíu sekúndur, Seljaskóli með atriðið Fer þetta svona?, Landakotsskóli með atriðið Á bak við tjöldin, Hagaskóli með atriðið Líttu upp, taktu eftir og Laugalækjarskóli með atriðið Dagurinn hennar mömmu. Eins og venjan er var tilkynnt í gær hvaða tvö atriði dómnefnd hefur valið áfram til viðbótar við þau sem komust beint í úrslit. Að þessu sinni voru það Langholtsskóli með atriðið Gerandinn er þinn besti vin og Foldaskóli með atriðið Fast Fashion og keppa því átta skólar til úrslita. Úrslitakeppnin fer fram í Borgarleikhúsinu á mánudaginn, 13. nóvember kl. 20 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Fjölbreytt og brýn umfjöllunarefni

Í Skrekk fá unglingar í grunnskólum Reykjavíkur að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins fyrir hönd síns skóla. Atriðin að þessu sinni fjalla um umhverfismál, áhrif síma og samfélagsmiðla og mikilvægi þess að sjá veröldina þar fyrir utan, kvíða og geðheilbrigði, gerendameðvirkni, sýnileika minnihlutahópa, vináttu og hraðtísku svo að eitthvað sé nefnt. Unglingarnir nýta all­ar sviðslist­ir í atriðin; tónlist, dans, leik­list og gjörn­inga. Þau sjá um að semja atriðin, það er leik, dans, sögu og tónlist og sum eru jafnvel með frumsamin lög. Krakkarnir sjá líka um tækni­hliðina, bún­inga og förðun. Full­orðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.       

Skrekkur er samstarfsverkefni Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV, í Borgarleikhúsinu.