Söfnin opna dyr sínar á Safnanótt

Hallgrímskirkja á Vetrarhátíð 2023

Gestum Vetrarhátíðar býðst að fara frítt á fjölmörg söfn á Safnanótt föstudaginn 3. febrúar og skoða ótal sýningar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá.

Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin.

Huldufólk og saga Reykjavíkur verður á dagskrá Safnanætur hjá Borgarsögusafni.

Listasafn Reykjavíkur býður upp á litríka dagskrá í öllum safnhúsum Listasafnsins. Örleiðsagnir um sýningar, gestum er boðið í skoðunarferð um listaverkageymslur safnsins og margt fleira.

Borgarbókasafnið er með með ljóðaslamm, dansatriði og plötusnúður mun svo leika fyrir dansi.

Vígalegir víkingar frá víkingafélaginu Rimmugýg heimsækja Sögusafnið á Safnanótt, sýna vopn sín og fatnað, spjalla við gesti og gangandi og skemmta eins og þeim er einum lagið.

Í Safnahúsinu á Hverfisgötu opnar sýningin Viðnám í Safnahúsinu – samspil myndlistar og vísinda. Skemmtileg gagnvirkni og listasmiðjur leynast í hverjum krók.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafns Íslands á annarri hæð Perlunnar þar sem viðfangsefnið er vatn frá ýmsum hliðum. Starfsmenn Náttúruminjasafnsins og félagsmenn Jöklarannsóknarfélagsins bjóða gesti velkomna og spjalla um undur vatns og jökla.

Á Þjóðminjasafninu verður horfið aftur til 19. aldar þar sem gestir fá að upplifa kvöldvöku í baðstofunni. Kvæðamenn, - konur og börn flytja ýmiss konar kveðskap, rímur og vísur, sagnaþulur segir ævintýri.

Skemmtileg og fjölbreytt dagskrá verður í söfnum víða um höfuðborgarsvæðið:

Í Hafnarfirði opna Byggðasafnið, Bókasafnið og Hafnarborg dyr sínar fram á kvöld og bjóða uppá skemmtilega dagskrá á Safnanótt. Ratleikur, risatetris, Skuggabrúðuleiksýning og tónlist. Sjá dagskrá í Hafnarfirði

Í Kópavogi verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá sem samanstendur af Safnanótt, Sundlaugasíðdegi og ljósalist ásamt ótal viðburðum og sýningum auk þess tekur fjöldi listafólks þátt í að skapa rafmagnað andrúmsloft í Kópavogi. Sjá dagskrá í Kópavogi

Menningarstofnanir í Garðabæ taka þátt í Vetrarhátíð og verður boðið upp á dagskrá þar sem allir aldurshópar ættu að finna eitthvað skemmtilegt að upplifa. Sem dæmi má nefna að á Hönnunarsafninu í Garðabæ verður boðið upp á heima-hönnunarsmiðju fyrir alla fjölskylduna. Sjá dagskrá í Garðabæ

Á Seltjarnarnesi verða helstu mannvirki lýst upp með norðurljósagrænum ljósum og fjöldi viðburða í boði fyrir alla fjölskylduna. Sjá dagskrá á Seltjarnarnesi

Bókasafn Mosfellsbæjar verður með tónlist, leik, leirlist og lestur og sérstaka Safnanæturgetraun á Safnanótt. Sjá dagskrá Mosfellsbæjar

Safnanótt stendur yfir frá klukkan 18:00–23:00

Allar nánari upplýsingar um dagskrá Vetrarhátíðar má nálgast á vetrarhatid.is