Snjallræði um sjálfbæra þróun

Svafa Grönfeldt heldur fyrirlestur á Snjallræði en hún er í forsvari stýrihóps um Snjallræði.
Svafa Grönfeldt heldur fyrirlestur á Snjallræði en hún er í forsvari stýrihóps um Snjallræði.

Snjallræði er 16 vikna vaxtarrými sem styður við teymi sem brenna fyrir lausnum á áskorunum samtímans og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Dagskráin er í fjórum lotum en fyrsta lota hefst 25. ágúst og þeirri síðustu lýkur í byrjun desember á þessu ári. Skráning til þátttöku er til 7. ágúst.

Lausnirnar sem verða til geta snúið að ýmsum málefnum t.d. heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, menntun eða jafnréttismálum.

Samfélagsleg nýsköpun felst í því að nota skapandi hugsun í að leysa samfélagslegar áskoranir og byggja upp kerfi og/eða lausnir sem fela í sér ávinning fyrir almenning og umhverfi samfélaginu til góða.

Snjallræði var stofnað af Höfða friðarsetri árið 2018 og er þetta í þriðja sinn sem haldnar eru vinnustofur. Fjölda margir koma að vinnusmiðjum og má þar nefna  KLAK (félag í eigu Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Origo, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins) í samstarfi við MIT designX (nám við MIT School of Architecture and Planning tileinkað hönnun, nýsköpun og frumkvöðlastarfi), Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Háskóla Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands ásamt fjölda annarra fyrirtækja. Efst á baugi eru sérfræðingar frá MIT, sem koma til landsins og deila þekkingu sinni til þátttakenda.

Þátttakendur í Snjallræði;

  • Taka þátt í 16 vikna dagskrá í fjórum lotum í samstarfi við MIT designX
  • Fá aðgang að tengslaneti og ráðgjöf frá öflugum hópi lærimeistara (mentora) og sérfræðinga á sviði samfélagsmála, heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og nýsköpunar
  • Fá aðstöðu í Grósku, miðju nýsköpunar, í Vatnsmýrinni
  • Þjálfun frá erlendum og innlendum sérfræðingum í samfélagslegri nýsköpun, m.a. frá MIT, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Reykjavíkurborg.

Nánari upplýsingar hjá Snjallræði og Klak.