Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framúrskarandi grunnskólastarf voru afhent við hátíðlega athöfn á Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara í Hörpu í dag. Verðlaunin komu í hlut þriggja skóla; Hólabrekkuskóla fyrir verkefnið Snillismiðjuna, Fellaskóla fyrir verkefnið Framtíðarfell og Waldorfskólans Sólstafi fyrir verkefnið Lifandi tónlist í lifandi skólasamfélagi.
Skúli Helgason formaður, skóla- og frístundaráðs, og Eva Einarsdóttir, varaformaður ráðsins, afhentu hvatningarverðlaunin á fjölsóttri Öskudagsráðstefnu grunnskólakennara þar sem yfirskriftin var Menntastefna fyrir börn í borg. Þessi verðlaun hafa verið veitt óslitið síðan árið 2003 og voru nú veitt í 16. sinn fyrir framúrskarandi nýbreytni- og þróunarstarf í grunnskólum borgarinnar. Verðlaunaverkefnin 2018 þrjú voru:
Snillismiðja Hólabrekkuskóla
Í Snillismiðjunni í Hólabrekkuskóla er unnið að því að tengja saman list-, verk- og tæknigreinar þar sem nemendur fá tækifæri til að læra tækni í gegnum listsköpun. Í umsögn dómnefndar sagði: Hér er um að ræða verkefni þar sem nemendur fá tækifæri til að kynnast nýjustu tækni og vinna með nýsköpun í skólastarfi. Í Snillismiðjunni er nemandinn í fyrirrúmi og fær að njóta sín í fjölbreyttum verkefnum. Verkefnið reynir á samvinnu á milli kennara og nemenda og er öðrum til eftirbreytni.
Fellaskóli – Framtíðarfell
Verkefnið Framtíðarfell miðar að því að innleiða nýja og fjölbreytta kennsluhætti þar sem möguleikar stafrænnar tækni eru nýttir til að styrkja kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Í Fellaskóla eru 80% nemenda með annað tungumál en íslensku. Í umsögn dómnefndar segir; Hér er á ferðinni þarft og mikilvægt verkefni sem stuðlar að tengingu íslensku og móðurmáls nemenda. Verkefnið leiðir til fjölbreyttra kennsluhátta og námstækifæra fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.
Waldorfskólinn Sólstafir - Lifandi tónlist í lifandi skólasamfélagi
Waldorsskólinn Sólstafir tók sem tónleikastaður þátt í Iceland Airwaves Off Venue á síðustu hátíð með það að markmiði að tengja saman skóla, listir og samfélag. Prófaðar voru framsæknar aðferðir í tónlistarkennslu og skapað rými þar sem nemendur, kennarar, foreldrar, fjölskylda, tónlistarmenn og utan að komandi gestir gætu átt stund saman með tónlistarflutningi. Í umsögn dómnefndar segir: Verkefnið er lýsandi fyrir lifandi skólastarf og aukin tengsl milli lista og samfélags með þátttöku í tónleikastarfi. Það sýnir ákveðna djörfung hjá fámennu skólasamfélagi að taka þátt í svo stórum, alþjóðlegum tónlistarviðburði og opna dyrnar fyrir gestum frá öllum heimshornum. Verkefnið er hvatning fyrir aðra skóla, stóra sem smáa að takast á við ný og framandi verkefni.
Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer á vegum starfsstaða skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar ásamt því að stuðla að nýbreytni- og þróunarstarf.i Að þessu sinni bárust 22 tilnefningar til verðlaunanna vegna áhugaverðra þróunar- og nýbreytniverkefna í 16 grunnskólum borgarinnar.
Til hamingju með verðlaunin Hólabrekkuskóli, Fellaskóli og Waldorfskólinn Sólstafir!