Átta grunnskólar keppa til úrslita þegar Skrekkur, hæfileikahátíð grunnskólanna nær hámarki í Borgarleikhúsinu í kvöld. Sjónvarpað verður beint frá hátíðinni.
Úrslitakvöld Skrekks, hæfileikahátíðar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, fer fram mánudaginn 13. nóvember klukkan 20 í Borgarleikhúsinu. Átta grunnskólar í Reykjavík keppa til úrslita í keppninni sem verður sýnd í beinni sjónvarpsútsendingu á RUV. Yfir 200 unglingar munu stíga á stóra svið Borgarleikhússins og taka þátt í uppfærslum á frumsömdum atriðum sinna skóla og spreyta sig í leiklist, söng, dansi, hljóðfæraleik, búningahönnun, förðun ljósum, hljóði og annarri sviðsvinnu. Skólarnir átta sem keppa til úrslita eru Austurbæjarskóli, Árbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Foldaskóli, Hagaskóli, Langholtsskóli, Réttarholtsskóli og Rimaskóli.
26 grunnskólar tóku þátt í Skrekk á þremur undanúrslitakvöldum í liðinni viku og hátt í 700 ungmenni dönsuðu, léku og sungu á stóra sviði Borgarleikhússins. Aldrei hafa fleiri skólar verið með í Skrekk.
Dómnefnd skipa stjórnendur menningarhúsa í borginni; Borgarleikhússins, Þjóðleikhússins, Hörpu, Íslenska dansflokksins, ungmenni úr ungmennaráði Samfés og formaður dómnefndar er Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.