Undanúrslit hæfileikakeppninnar Skrekks hefjast í Borgarleikhúsinu í kvöld og verður keppt þrisvar sinnum til úrslita 1., 2. og 3. nóvember. Á lokakvöldinu 8. nóvember munu fulltrúar átta skóla stíga á svið.
Í Skrekki fá unglingar í borginni tækifæri til að vinna með hugmyndir sínar og setja upp sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins í nafni síns skóla. Þetta er stór menningarviðburður í hugum unglinganna, bæði þeirra sem spreyta sig á ýmsum þáttum sviðslistanna, þeirra sem eru áhorfendur og annarra nemenda skólanna.
Að þessu sinni taka 23 skólar og 580 unglingar þátt í hátíðinni og er óhætt að segja að spennan hefur verið að magnast á undanförnum vikum á meðan sviðsverkin hafa verið að þróast.
Atriðin í að þessu sinni fjalla um sjálfsmynd unglinga, líðan og áskoranir, ólíka tjáningarmáta, fitufordóma, Metoo-byltinguna, strákana okkar, fátækt og fleira. Unglingarnir semja atriðin frá grunni og nýta allar hliðar sviðslista í atriðunum sínum; söng, hljóðfæraleik, dans, leiklist og gjörninga og. Þeir sjá líka um tækni, búninga og förðun. Fullorðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.
Þetta er annar Skrekkur ársins 2021 sökum þess að fresta varð hátíðinni í fyrra vegna heimsfaraldursins. En unglingar og aðstoðarfólk eru ekki alveg laus við Covid og því munu allir þátttakendur fara í hraðpróf áður en stigið er á svið.
Skrekkur er samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur, UngRÚV og Borgarleikhússins. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun afhenda fyrstu verðlaun á stóra sviði Borgarleikhússins mánudaginn 8. nóvember og eru fulltrúar fjölmiðla velkomnir á þann viðburð sem verður jafnframt í beinni útsendingu á RÚV.
Skólarnir sem keppa í kvöld eru: Landakotsskóli, Langholtsskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Norðlingaskóli.