Skrekkurinn magnast í annað sinn á árinu

Skóli og frístund

""

Undanúrslit hæfileikakeppninnar Skrekks hefjast í Borgarleikhúsinu í kvöld og verður keppt þrisvar sinnum til úrslita 1., 2. og 3. nóvember. Á lokakvöldinu 8. nóvember munu fulltrúar átta skóla stíga á svið.

Í Skrekki fá unglingar í borginni tækifæri til að vinna með hugmyndir sínar og setja upp sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins í nafni síns skóla. Þetta er stór menningarviðburður í hugum unglinganna, bæði þeirra sem spreyta sig á ýmsum þáttum sviðslistanna, þeirra sem eru áhorfendur og annarra nemenda skólanna.

Að þessu sinni taka 23 skól­ar og 580 unglingar þátt í hátíðinni og er óhætt að segja að spennan hefur verið að magnast á undanförnum vikum á meðan sviðsverkin hafa verið að þróast.

Atriðin í að þessu sinni fjalla um sjálfs­mynd ung­linga, líðan og áskor­an­ir, ólíka tjáningarmáta, fitufordóma, Metoo-byltinguna, strákana okkar, fátækt og fleira. Unglingarnir semja atriðin frá grunni og nýta all­ar hliðar sviðslist­a í atriðunum sínum; söng, hljóðfæraleik, dans, leik­list og gjörn­inga og. Þeir sjá líka um tækni­, bún­inga og förðun. Full­orðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.

Þetta er annar Skrekkur ársins 2021 sökum þess að fresta varð hátíðinni í fyrra vegna heimsfaraldursins. En unglingar og aðstoðarfólk eru ekki alveg laus við Covid og því munu allir þátttakendur fara í hraðpróf áður en stigið er á svið.

Skrekkur er samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur, UngRÚV og Borgarleikhússins. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun afhenda fyrstu verðlaun á stóra sviði Borgarleikhússins mánudaginn 8. nóvember og eru fulltrúar fjölmiðla velkomnir á þann viðburð sem verður jafnframt í beinni útsendingu á RÚV.   

Skólarnir sem keppa í kvöld eru: Landakotsskóli, Langholtsskóli, Laugalækjarskóli, Réttarholtsskóli, Ölduselsskóli, Fellaskóli og Norðlingaskóli.