Skrekkur á sviði Borgarleikhússins

Skóli og frístund

""

Skrekkur, árleg hæfileikahátíð Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, fer fram á fjórum nóvemberkvöldum á stóra sviði Borgarleikhússins.

Í ár taka þátt 26 grunnskólar með unglingadeild í Reykjavík og það er full ástæða til að fagna virkum og skapandi unglingum um alla borg. Öll verkin eru frumsamin af unglingunum og flutt af þeim.

Í næstu viku fara undanúrslitin fram í Borgarleikhúsinu það er 5., 6. og 7. nóvember, en sjálft úrslitakvöldið verður mánudaginn 12. nóvember. Átta skólar stíga á stóra sviðið á mánudag, níu á þriðjudag og níu á miðvikudag.  RUV sýnir beint frá úrslitakvöldi Skrekks en sú nýlunda á sér stað þetta árið að undanúrslitakvöldin verða sýnd í beinni vefútsendingu á ungruv.is

Dómnefnd undanúrslitakvöldanna skipa: Halla Margrét Jóhannesdóttir, Ernesto Camilo, Bryndís Jakobsdóttir, Ásta Glódís fulltrúi ungmennaráðs Samfés og Sigfríður Björnsdóttir – formaður dómnefndar, deildarstjóri listfræðslu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur.  

Dómnefnd úrslitakvöldsins skipa stjórnendur menningarhúsa í borginni; Borgarleikhússins, Þjóðleikhússins, Hörpu, Íslenska dansflokksins, ungmenni úr ungmennaráði Samfés og formaður dómnefndar er Sigfríður Björnsdóttir deildarstjóri listfræðslu hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

FB-síða Skrekks #Skrekkur_skrekkur á Instagram og Skrekkursfs á Snapchat