Skrekkur á næsta leiti

Skóli og frístund

Sigri í Skrekk fagnað á sviði Borgarleikhússins.

700 unglingar frá 24 skólum í Reykjavík taka þátt í Skrekk sem nú verður haldinn í 33. sinn. Ljóst er að mikið verður um dýrðir í næstu viku, bæði á undanúrslitakvöldunum og þegar úrslitin sjálf fara fram. Átta skólar munu keppa til úrslita.

Í Skrekk fá unglingar í grunnskólum Reykjavíkur að vinna með hugmyndir sínar og þróa sviðsverk fyrir stóra svið Borgarleikhússins fyrir hönd síns skóla. 

Umhverfismál og samfélagsmiðlar verða meðal efnistaka

Atriðin í ár fjalla um umhverfismál, áhrif síma og samfélagsmiðla og mikilvægi þess að sjá veröldina þar fyrir utan, kvíða og geðheilbrigði, sýnileika minnihlutahópa og vináttu svo að eitthvað sé nefnt. Unglingarnir nýta all­ar sviðslist­ir í atriðin; tónlist, dans, leik­list og gjörn­inga. Þau sjá um að semja atriðin, það er leik, dans, sögu og tónlist og sum eru jafnvel með frumsamin lög. Krakkarnir sjá líka um tækni­mál, bún­inga og förðun. Full­orðnir hafa það hlutverk að styðja þau við uppsetningu atriðanna.      

Kynnar í ár eru þau Egill Andrason og Helga Salvör sem bæði eru nemar við Listaháskóla Íslands og er viðbúið að þau setji sitt mark á keppnina. Eins og áður segir er keppnin haldin í 33. sinn og fyrstu keppendur því komnir á fimmtugsaldur. Fyrirfram hafa Helga Salvör og Egill óskað eftir vel völdum sögum sem tengst hafa keppninni í gegnum árin og er enn tækifæri til að senda inn gullkorn á netfangið skrekkursfs@gmail.com.

Sigurvegarar krýndir á stóra sviðinu

Skrekkur er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur og RÚV og fer fram í Borgarleikhúsinu. Undanúrslitakeppnirnar verða sýndar í vefútsendingu á UngRÚV og RÚV en lokakvöldinu þann 13. nóvember verður sjónvarpað beint í línulegri dagskrá á RÚV þegar sigurvegararnir verða krýndir á stóra sviði Borgarleikhússins.