Skref í átt að nýju Grófarhúsi

Framkvæmdir Mannlíf

Eiríkur Björn Björgvinsson, Jaakko van ‘t Spijker, Ólöf Örvarsdóttir og Dagur B. Eggertsson skrifuðu undir samning um að ljúka hönnunarferlinu á nýju og breyttu Grófarhúsi. Myndir/Róbert Reynisson
Fólk að skrifa undir samning við borð. Jólatré í baksýn.

Grófarhús fær nýtt líf sem lifandi menningar- og samfélagshús en í dag var skrifað undir samning um að ljúka hönnunarferlinu að breyttu húsi. Teymi frá JVST arkitektum, Inside Outside, Hanrath Architect, Kreatíva teiknistofu, VSÓ ráðgjöf og Örugg verkfræðistofu varð hlutskarpast  í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Arkitektafélags Íslands en úrslitin voru tilkynnt í nóvember í fyrra.

Jaakko van ‘t Spijker, skrifaði undir ráðgjafarsamninginn fyrir hönd hönnunarteymisins en vinningstillagan ber heitið Vitavegur. Fyrir hönd Reykjavíkurborgar skrifuðu undir Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sem hélt jafnframt ræðu og fagnaði þessum áfanga.

Spennandi hönnunarferli framundan

Markmiðið með endurbótunum er að uppfylla sem best þær kröfur sem eru gerðar til nútíma bókasafna sem hýsa fjölbreytta þjónustu og dagskrá fyrir íbúa og aðra.  Borgarstjóri hefur lagt áherslu á að með breytingunum fái Grófarhús nýtt líf, sem opin og skemmtileg bygging, lifandi samfélags- og menningahús í takt við vel heppnuð dæmi hjá nágranna- og vinaþjóðum okkar. Í ræðu sinni í dag tók borgarstjóri sérstaklega fram hversu vænt honum þyki um bókasafnið og er hann spenntur fyrir hönnunarferlinu sem framundan er.

Merkur áfangi fyrir safnið og borgarbúa

Einnig tók til máls Barbara Guðnadóttir, safnstjóri Borgarbóksafnsins í Grófinni en Borgarbókasafnið er hundrað ára í ár og er undirskriftin mikið gleðiefni og kærkomin afmælisgjöf. „Þetta er merkur áfangi fyrir okkur sem störfum hjá Borgarbókasafninu, fyrir þá sem hafa staðið að vali á hönnun fyrir nýtt safn, fyrir hönnuðina en alveg sérstaklega fyrir borgarbúa,“ sagði hún.