Skólahald breytist í norðanverðum Grafarvogi næsta haust

Skóli og frístund

""

Borgarstjórn hefur samþykkt að frá og með hausti 2020 verði þrír grunnskólar starfræktir í norðanverðum Grafarvogi. Borgaskóli og Engjaskóli verði fyrir nemendur í 1.-7. bekk og Víkurskóli verði sameinaður unglingaskóli fyrir nemendur í 8.-10 bekk.

Í Víkurskóla verður lögð áhersla á hugmyndafræði nýsköpunar . Nýsköpun í skóla- og frístundastarfi felur jafnframt í sér áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð, teymisvinnu, gagnrýna hugsun og lausnamiðað nám.  Tillagan byggir á faglegum, félagslegum og fjárhagslegum grunni þar sem markmiðið er að bæta nám og félagslega stöðu nemenda í hverfinu.  Byggt var á vinnu starfshóps um framtíðarskipan skólahalds í norðanverðum Grafarvogi þar sem fulltrúar kennara, skólastjórnenda, kennara og nemenda áttu sína fulltrúa.

Ákvörðun borgarstjórnar felur í sér að skólahald verður aflagt í Korpuskóla þar til börnum í Staðahverfi á aldrinum 6-12 ára hefur fjölgað á ný upp í 150 og verður þá ákvörðun um skólahald  hverfinu endurskoðuð í samstarfi við foreldra og íbúa. 59 nemendur eru nú í Korpu og hefur fækkað úr ríflega 250 á rúmum áratug. Gert er ráð fyrir að fjárhagslegur ávinningur af þessum breytingum verði um 200 milljónir króna á hverju ári.

Í greinargerð er lagt til að innleiðingarhópar verði skipaðir til að tryggja markvisst og farsælt breytingaferli, einn hópur fyrir hvern skóla/frístundaheimili/félagsmiðstöð og einn yfirhópur sem tryggi að samfella skapist í skipulagi skólahalds, frístundastarfs og samgöngumála.

Innleiðingarhóparnir munu starfa fram til loka árs 2022 eða lengur ef þörf krefur. Sérhver þeirra verður skipaður fulltrúum skólastjórnenda, kennara, nemenda og foreldra, frístundastarfs og  fulltrúum skóla- og frístundasviðs. Í yfirhópi verði fulltrúar skólastjórnenda, foreldra, kennara, stjórnendateymis Gufunesbæjar og fulltrúar skóla- og frístundasviðs. Í vinnu hópanna verður sérstaklega hugað að breytingum í starfsmannahaldi og tryggt að öllum starfsmönnum bjóðist áfram starf hjá skóla- og frístundasviði.

Í greinargerð segir einnig að tryggðar verði samgöngubætur til að bæta umferðaröryggi gangand og hjólandi vegfarenda og til að tengja betur öll hverfi í norðanverðum Grafarvogi.

· Göngu- og hjólaleiðir verði bættar til að gera skóla-, frístunda- og íþróttastarf aðgengilegra fyrir íbúa í öllum norðanverðum Grafarvogi.

· Undirgöng eða ámóta örugg göngu- og hjólaleið verði sett við Strandveg/Víkurveg á milli Garðsstaða og Breiðavíkur.

· Sett verði upp gönguljós og þrenging götu við Mosaveg.

· Unnið verði að úrbótum á almenningssamgöngum, með áherslu á fjölgun biðstöðva og tíðari ferðir.