Skjót viðbrögð við mengunaróhappi

Samgöngur Umhverfi

""

Mengunaróhapp varð í morgun þegar díselolía fór niður við Valshóla í Breiðholti. Vörubíll hafði keyrt utan í stein þegar hann var að koma af bílastæði við Valshóla og kom við það  gat á olíutank.  

Sjá neðst í frétt uppfærslu á stöðu mála. 

Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins fór á vettvang og náðist að dæla upp meirihluta olíunnar en hluti hennar fór niður um niðurfall á götunni og í ofanvatnskerfi borgarinnar sem liggur í settjörn í Elliðaárdal og þaðan í Elliðaár. Töluverð mengun er í settjörn en hreinsun gengur vel og standa vonir til þess að hægt verði að koma í veg fyrir að mengun berist í árnar.

Að mati slökkviliðsins fóru niður um 250 – 300 lítrar af díselolíu og náðist að hreinsa upp meirihluta hennar, en mögulegt er að um 100 lítrar hafi farið í ofanvatnskerfið.

Frétt uppfærð 2. ágúst:

Heilbrigðiseftirlitið kannaði aðstæður við settjörn í Elliðaárdal í morgun þar sem mengun varð í gær vegna olíuóhapps í Valshólum. Enn er lítilsháttar olíubrák á tjörninni og verður hreinsun haldið áfram í dag með ísogsmottum.  Heilbrigðiseftirlitið mun áfram fylgjast með framvindu málsins. Ljóst er aðgerðir í gær skiluðu árangri og engin mengun barst í Elliðaár.  Settjörnin gegnir því hlutverki að hindra að mengun berist viðstöðulaust í árnar og skilaði sínu vel.