Skipulagslýsing fyrir Suðurfell

Skipulagsmál

Suðurfell

Verklýsing vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagsgerðar fyrir þróunarsvæði við Suðurfell var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þann 14. júní 2023. Skipulagslýsingin tekur til þróunarsvæðis í suðausturhluta Fellahverfis.

Um er að ræða óbyggt svæði sem liggur austan við Fellahverfi í efra Breiðholti og nær að mörkum Elliðaárdals. Aðkoma að svæðinu er um Suðurfell og liggja göngustígar og hjólastígar um svæðið sem tengjast göngustígakerfi Elliðaárdals.

Í nýju deiliskipulagi verður gert ráð fyrir lágreistri íbúðarbyggð, 1-2 hæðir, með 50-75 íbúðum. Byggð skal aðlagast vel að landi og mynda sólrík og skjólgóð útisvæði fyrir íbúa.

Opin svæði og stígar/hjólastígar skulu mynda góða tengingu milli eldri byggðar handan Suðurfells og hinnar nýju byggðar og jafnframt við útivistarsvæði Elliðaárdals. Gert er ráð fyrir að halda áfram í opið svæði innan þróunarsvæðisins líkt og skilgreint er í aðalskipulagi 2040 en opna á möguleika við að skilgreina það á nýjan hátt með komandi deiliskipulagi.

Tilgangur skipulagslýsingarinnar er að greina frá svæðinu, áherslum og markmiðum við skipulagsgerðina, forsendum sem liggja að baki og fyrirhuguðu skipulagsferli.

Óskað er eftir að ábendingar/umsagnir berist eigi síðar en 18. ágúst 2023 í gegnum Skipulagsgáttina.