Skipt um gólfefni í leikskólanum Ægisborg

Skóli og frístund

""

Framkvæmdir munu hefjast á morgun, föstudaginn 17. september við leikskólann Ægisborg. Leikskólastarf verður áfram í stærstum hluta skólans en hópur barna og starfsmanna mun flytjast í annað húsnæði tímabundið.

Reykjavíkurborg óskaði eftir úttekt á húsnæði leikskólans Ægisborgar frá verkfræðistofunni Eflu um leið og ábending barst frá leikskólastjóra í sumar. Úttektin leiddi í ljós óvenjulega hátt rakastig í gólfplötu skólans og lagði Efla til að skipt yrði alfarið um gólfefni og verður þá einnig settur hiti í gólf. Þar að auki verða lagðar drenlagnir við leikskólann.

Niðurstöður úttektar og fyrirhugaðar framkvæmdir hafa verið kynntar skólastjórnendum, starfsmönnum og foreldrum og allar áætlanir unnar í fullu samráði við leikskólasamfélagið. Unnið er eftir nýjum verkferlum um rakaskemmdir eða myglu í húsnæði sem hýsir starfsemi Reykjavíkurborgar.

Verklok eru áætluð innandyra í fyrri hluta nóvember. Til stendur að 28 eldri börn í leikskólanum ásamt 7 starfsmönnum fái aðstöðu hjá íþróttafélaginu KR í Frostaskjóli sem er í næsta nágrenni við leikskólann á meðan framkvæmdir standa yfir. Gott samstarf er milli KR og Ægisborgar en börnin fara þegar tvisvar í viku í hreyfingu þar. Þá munu börnin fara í tvær ævintýraferðir með rútu í Gufunesbæ í haust.