Skemmtileg sumarnámskeið hjá Keðjunni fyrir börn og unglinga

Velferð Skóli og frístund

""

Keðjan stóð í sumar fyrir þremur námskeiðum fyrir börn og ungmenni á aldrinum 12-16 ára. Hvert þeirra stóð yfir þrjár vikur í senn, alla virka daga.

Markhópur Keðjunnar eru börn og ungmenni sem eru félagslega einangruð, standa höllum fæti eða koma úr félagslega erfiðum aðstæðum. Markmið sumarnámskeiðanna var að virkja og efla sjálfsöryggi barnanna ásamt því að bæta félagsfærni þeirra.

Keðjan var svo heppin að fá að ráða inn fimm starfsmenn en störfin voru hluti af atvinnuátaki borgarinnar í samvinnu við Vinnumálastofnun. Þeir voru með ólíkan bakgrunn og mismikla reynslu af að starfa með börnum og unglingum en stóðu sig afar vel. Starfsmennirnir voru líka ánægðir með að fá að taka þátt í þessu verkefni og afla sér reynslu á þessu sviði og nokkrir þeirra hafa ákveðið að sækja um önnur störf tengd börnum og ungmennum og jafnvel fara í nám í þessum geira.

Keðjan veitir stuðningsþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra og heyrir undir velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þjónustan er meðal annars í formi uppeldisráðgjafar inn á heimili, einstaklingsstuðningi við börn, hópastarfi, námskeiðum fyrir börn og foreldra, dvöl hjá stuðningsfjölskyldum, Skahm (þjónusta fyrir börn með margþættan vanda), unglingasmiðjur og PMTO uppeldisráðgjöf/meðferð.