Skeifan áfram vinsælt verslunar- og þjónustusvæði

Skipulagsmál

""
Skeifan er mikilvægt þróunarsvæði í Reykjavík og býður upp á spennandi uppbyggingarmöguleika til framtíðar. 
Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er áætluð aukning húsnæðis á svæðinu um 85 þúsund fermetrar, þar af um 500 íbúðir. Stefnt er að því að gera deiliskipulagstillögu sem skapar ramma fyrir þétta og blandaða byggð með íbúðir og skrifstofur á efri hæðum og verslun og þjónustu á jarðhæð. Samkvæmt verklýsingu er gert ráð fyrir að svæðið fái að þróast og byggjast upp á eigin forsendum og frumkvæði einstakra lóðarhafa.


Verklýsingin sem lýsir fyrirhugaðri vinnu við gerð deiliskipulags var samþykkt í kynningarferli á fundi umhverfis- og skipulagsráðs miðvikudaginn 10. febrúar og borgarráðs fimmtudaginn 18. febrúar 2016. Bréf verður sent til lóðarhafa í Skeifunni og auglýsing birt í fjölmiðlum um kynninguna, sem mun standa í fjórar vikur en á þeim tíma mun áhugasömum aðilum gefast tækifæri á því að koma með athugasemdir við lýsinguna, sem verða teknar inn í áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulagsins. Jafnframt verður haldinn kynningarfundur fyrir hagsmunaaðila í Skeifunni á kynningartímabilinu.
 
Stefnt er að því að nýtt deiliskipulag muni innihalda leiðbeinandi skipulags- og byggingarskilmála, með rúmum byggingarreitum um núverandi húsnæði á svæðinu, sem muni m.a. heimila nýjar viðbyggingar og/eða niðurrif þar sem það á við, sem lóðarhafar geta nýtt upp á eigin frumkvæði. 


Ekki er gert ráð fyrir að þau fyrirtæki sem eru á svæðinu flytji burt og mun deiliskipulagið vera unnið í sem mestri sátt við hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir að byggð á svæðinu haldi að einhverju leyti í sín upprunaleg einkenni og að uppbygging eigi sér stað yfir langt tímabil, þegar lóðarhafar telja slíkt tímabært.


Skeifan mun áfram vera vinsælt verslunar- og þjónustusvæði sem þjónustar íbúa í nánasta umhverfi, Reykjavík allri og nærliggjandi sveitarfélögum og mun deiliskipulagsgerðin styrkja svæðið enn frekar. 
 
Lýsingin fer í formlega kynningu mánudaginn 22. febrúar. Sjá tengil.
 
Tengill