
Verklýsingin sem lýsir fyrirhugaðri vinnu við gerð deiliskipulags var samþykkt í kynningarferli á fundi umhverfis- og skipulagsráðs miðvikudaginn 10. febrúar og borgarráðs fimmtudaginn 18. febrúar 2016. Bréf verður sent til lóðarhafa í Skeifunni og auglýsing birt í fjölmiðlum um kynninguna, sem mun standa í fjórar vikur en á þeim tíma mun áhugasömum aðilum gefast tækifæri á því að koma með athugasemdir við lýsinguna, sem verða teknar inn í áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulagsins. Jafnframt verður haldinn kynningarfundur fyrir hagsmunaaðila í Skeifunni á kynningartímabilinu.
Ekki er gert ráð fyrir að þau fyrirtæki sem eru á svæðinu flytji burt og mun deiliskipulagið vera unnið í sem mestri sátt við hagsmunaaðila. Gert er ráð fyrir að byggð á svæðinu haldi að einhverju leyti í sín upprunaleg einkenni og að uppbygging eigi sér stað yfir langt tímabil, þegar lóðarhafar telja slíkt tímabært.
Skeifan mun áfram vera vinsælt verslunar- og þjónustusvæði sem þjónustar íbúa í nánasta umhverfi, Reykjavík allri og nærliggjandi sveitarfélögum og mun deiliskipulagsgerðin styrkja svæðið enn frekar.