Skapandi samráð vegna umbreytingar á Grófarhúsi

Skapandi vinnustofur með notendum um umbreytingu á Borgarbókasafninu í Grófarhúsi
Vinnustofa með notendum Borgarbókasafns í Grófinni.

Vikuna 27. febrúar – 3. mars hélt hönnunarteymið átta samráðsvinnustofur, þar sem mismunandi sjónarhorn á notkun hússins voru tekin fyrir.

Í lok síðasta árs var valin vinningstillaga að hönnun nýs Borgarbókasafns í miðbænum. Vinningstillagan „Vitavegur“ er unnin af afar spennandi þverfaglegu teymi, JVST arkitektum, Inside Out upplifunarhönnuðum, Kreativa innanahússhönnun, bókasafnssérfræðingi frá Hanratharchitect, VSÓ verkfræðistofu og Örugg verkfræðistofu. Um er að ræða umbreytingu á núverandi húsnæði auk viðbyggingar sem stendur tóm eins og er. Nánar á vef Hönnunarmiðstöðvar

Samtal við arkitektateymið. Vinnustofur með notendum, starfsfólki og hagaðilum

Starfsfólk af öllum sviðum bókasafnsins tók virkan þátt í vinnustofunum, þar sem rýnt var í teikningarnar og plönin skoðuð út frá margþættri starfssemi safnsins. Einnig var auglýst eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum og haft samband við breiðan hóp notenda og hagaðila. 12 - 18 manns tóku þátt í hverri vinnustofu, samtals hátt í 100 manns.

Samráðsvinnustofurnar eru til þess gerðar að dýpka skilning á notkun og starfsemi hússins og skoða náið hvaða væntingar nútíma safmélagsbókasafn þarf að uppfylla. Dýrmætt er að fá ýtarlega rýni og hugmyndir þeirra sem þekkja til starfsemi safnsins svo snemma í ferlinu, áður en þunginn af hönnunarvinnunni hefst, en einnig er mikilvægt að þátttakendur vinnustofanna séu lifandi partur af ferlinu og hlustað sé á hugmyndir og vangaveltur þeirra sem framtíðarnotendur af safninu.  

Afraksturinn sýndur á Hönnunarmars

Það verður því afar spennandi að fá innsýn í það sem kemur út úr þessum vinnustofum en afrakstur þeirra og næsti áfangi í hönnunarferlinu verður kynntur á Hönnunarmars 3.-7. mai næstkomandi. Á Hönnunarmars gefst gestum tækifæri til að að kíkja inn í framtíðina, rýna enn frekar næstu skref og koma með hugmyndir að því sem hægt verður að gera í nýju og umbreyttu miðbæjar bókasafni Reykjavíkur næstu 100 árin, en Borgarbókasafnið verður 100 ára í ár.

Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri nýsköpunar og Barbara Guðnadóttir safnstjóri Borgarbókasafnins í Grófinni skipulögðu og leiddu þessar vinnustofur í samvinnu við hönnunarteymi hússins.

Grófarhús