Í dag var tekið í notkun nýtt heimili í Vesturbrún sem býður upp á skammtímadvöl fyrir börn og ungmenni á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Markmið slíkrar skammtímadvalar er að veita börnum og ungmennum sem eru með alvarleg hegðunar og þroskafrávik stuðning en vandi þeirra getur haft hamlandi áhrif á þroska þeirra og komið í veg fyrir að þau geti notið skólagöngu eða umgengist önnur börn.
Heimilið sem býður upp á skammtímadvölina er í Vesturbrún en þangað geta foreldrar komið og fengið ráðgjöf um leið og barnið fær þjálfun í félagslegum samskiptum. Auk þess mun Vesturbrún bjóða upp á sólarhringsdvöl en þar eru þrjú herbergi til ráðstöfunar og er hægt að bjóða hverju barni upp á dvöl í allt að 14 sólarhringa í mánuði.
Starfsfólk fer einnig á heimili barnanna og veitir foreldrum ráðgjöf þar. Í sérstökum tilvikum er mögulegt að bjóða upp á sólarhringsþjónustu á heimilum barnanna. Á hverjum tíma geta 20 – 30 börn og fjölskyldur fengið ráðgjöf og stuðning á vegum úrræðisins.
,,Með þessu verkefni erum við að auka þjónustu við foreldra og börn í borginni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um skammtímadvölina sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. „Það hefur verið kallað eftir því að við komum inn með ráðgjöf og stuðning fyrir foreldra og bjóðum börnunum upp á þessa þjónustu því það er greinileg þörf á því. Þess vegna stígum við þetta skref hér í dag.“
Forstöðumaður heimilisins er Sigrún Sigurðardóttir þroskaþjálfi en hún hefur áratuga reynslu af störfum með börnum og unglingum með þroskafrávik og hegðunarvanda. Alls eru 15 stöðugildi tengd verkefninu.
Úrræðið mun tryggja samfellu í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og byggja upp sérþekkingu í þessum málaflokki á Íslandi.
Aðstaðan í húsnæðinu við Vesturbrún er mjög góð. Það er auk þess staðsett í næsta nágrenni við Laugardal þar sem eru fjölbreytt útivistarsvæði og íþróttaaðstaða.
Þeim sem vilja sækja um þjónustu í Vesturbrún er bent á að leita til þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar. Að auki er fyrirhugað að kynna þessa nýju starfsemi rækilega í grunnskólum og meðal helstu samstarfsaðila.