Sjálfboðaliðar í störfum hjá velferðarsviði

Velferð Skóli og frístund

""

Fjölmargt starfsfólk af ýmsum starfsstöðum Reykjavíkurborgar hefur boðist til að veita velferðarsviði liðsauka þar sem mikið álag er á starfsfólki á velferðarvaktinni vegna kórónuveirufaraldursins.

Mikið hefur mætt á starfsfólki Reykjavíkurborgar á þessu ári vegna COVID-19. Á það sérstaklega við um starfsfólk velferðarsviðs en einnig skóla- og frístundasviðs. Vegna sóttvarnaraðgerða hefur þurft að beita margvíslegum aðgerðum til að halda starfseminni gangandi. Meðal annars hafa neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk verið opnuð allan sólarhringinn svo fólk eigi einhvers staðar athvarf á daginn. Þetta er m.a. vegna þess að fjölmargir staðir í Miðborginni eru lokaðir, t.d. opinber söfn, barir, sundlaugar og kaffistofur. Einnig hafa verið opnuð bráðabirgðaúrræði fyrir heimilislaust fólk þar sem aðstæður leyfa ekki nálægðartakmarkanir í því húsnæði sem fyrir var.

Velferðarsvið hefur því þurft talsvert fleira starfsfólk til að geta brugðist við ástandinu sem COVID-19 hefur valdið.  Til þess að mæta álaginu hefur Reykjavíkurborg m.a. gripið til þess ráðs að biðja starfsfólk á öðrum sviðum að gefa sig fram til að létta undir.  Fjölmargir hafa boðið fram aðstoð sína, m.a. starfsfólk af menningar- og ferðamálasviði og frá ÍTR sem sinnir fjölbreyttum verkefnum hjá velferðarsviði.  Margir hafa tekið að sér að vera símavinir og hringja í eldra fólk til að spjalla við það og athuga líðan þess en sumir eru einmana í faraldrinum. Þá hefur starfsfólk einnig tekið að sér vaktir í neyðarskýlum fyrir heimilislaust fólk.

Guðrún Dís Jónatansdóttir stýrir deild miðlunar og nýsköpunar sem starfar þvert á menningarhús Borgarbókasafnsins. Nú tekur hún að sér vaktir í neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur sem komið var upp á þessu ári til að bregðast við of miklum þrengslum í Konukoti. Guðrún Dís hefur unnið hjá borginni í mörg ár og man eftir svokölluðum Vistaskiptum sem var verkefni sem miðaði að því að auka samheldni meðal borgarstarfsmanna, þekkingu á ólíkum störfum og tilfinningu fyrir því að Reykjavíkurborg væri einn vinnustaður.

„Ég hef alltaf verið hlynnt vistaskiptum og fyrir nokkrum árum þá fór starfsfólk hjá borginni gjarnan á milli og kynnti sér störf annarra. Það er hollt fyrir mann að upplifa borgina sem einn stóran vinnustað. Einnig finnst mér jákvætt að við hjálpumst að við að komast í gegnum þessa tíma. Það er líka áhugavert að kynnast þessum heimi. Þetta er viðkvæmur hópur og ákaflega mikilvægt að þessar konur eigi þarna skjól. Þetta hefur gengið vel og ég hef kynnst nokkrum af þeim konum sem þarna dvelja sem og því frábæra fólki sem þarna starfar. Þarna er konunum mætt á þeim stað sem þær eru og þeim er sýnd bæði virðing, vinsemd og umhyggja. Á staðnum ríkir gott andrúmsloft og alls ekki óþægilegt að koma inn í hópinn. Ég hvet alla sem hafa tækifæri til að bjóða fram krafta sína.“

Barbara Guðnadóttir safnstjóri Borgarbókasafnsins í Grófinni vann þrjá daga í þessari viku í neyðarskýli fyrir unga karlmenn á Grandagarði. Hún segist hafa haft gott af því að ögra sjálfri sér með vistaskiptunum.

„Ég var spennt en einnig með smá kvíðahnút í maganum fyrir fyrsta daginn, vissi ekki hverju ég gæti átt von á en það er nú alltaf þannig þegar maður byrjar í nýrri vinnu. Þetta var mjög áhugavert og fróðlegt. Það kom mér á óvart hvað allt var snyrtilegt og í föstum skorðum. Það er flott starfsfólk sem vinnur þarna og maður getur ekki annað en dáðst að því. Ég var kannski mest að taka til, þrífa, hella upp á kaffi og afgreiða eitthvað að borða en notaði tækifærið og spurði starfsmenn þarna spjörunum úr auk þess að spjalla aðeins við þá sem nota skýlið. Ég kannaðist reyndar við þá langflesta því þeir sækja svolítið til okkar á Borgarbókasafnið. Nú þegar allt er lokað er mjög gott að búið sé að opna skýlið yfir daginn. Það er mikil þörf fyrir það.

Ég er mjög jákvæð gagnvart því að kynnast og tengjast öðrum vinnustöðum í borginni. Það er gott að við getum hjálpast að þar sem hægt er að koma því við,“ segir Barbara.

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir deildarstjóri á velferðarsviði er ánægð með liðsaukann sem velferðarsvið hefur fengið í þessari bylgju kórónuveirufaraldursins. „Þetta er allt fólk sem treysti sér í verkefnið og er opið fyrir skaðaminnkandi úrræðum. Nýir starfsmenn eru aldrei einir á vaktinni þannig að fólk getur alveg óhrætt tekið þessi störf að sér. Við finnum fyrir mjög mikill jákvæðni í þessu verkefni,“ segir hún.