Símaspjall við eldri borgara

Covid-19 Velferð

""

Nýtt verkefni sem hefur fengið nafnið Spjöllum saman gengur út á að hringt er í allt fólk sem er 85 ára og eldri, býr einsamalt og hefur fengið þjónustu frá Reykjavíkurborg. Í símtalinu er líðan fólksins og aðstæður kannaðar og því boðið að eignast símaspjallsvin.  

Þetta er samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Markmiðið er að draga úr félagslegri einangrun eldri borgara á meðan samskipti og nánd er skert vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Farið er í átakið ekki síst til að sýna náungakærleik og standa saman á þessum óvenjulegu tímum.

Starfsfólk félagsmiðstöðva fullorðinna í Reykjavík hringja fyrsta símtal til einstaklinga sem um ræðir. Með símtalinu á að veita félagslegan stuðning í formi spjalls á forsendum hvers og eins. Starfsmenn segja frá verkefninu og frá sjálfboðaliðum í hverfinu sem langi til þess að sýna náungakærleika á meðan þetta ástand vari. Fólki er síðan boðið að sjálfboðaliði hafi samband símleiðis á næstu dögum.  Sjálfboðaliðar koma frá Landssambandi eldri borgara og Félagi eldri borgara í Reykjavík.

Símaspjallið kemur ekki í stað heimaþjónustu, heimahjúkrunar eða annarar þjónustu Reykjavíkurborgar heldur er það viðbót.

Bryndís Hreiðarsdóttir er í forsvari fyrir verkefnið fyrir hönd Reykjavíkurborgar en hún er verkefnisstjóri í Bústaða- og Háaleitishverfi. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, leiðir verkefnið hjá LEB og fyrir hönd Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er Dýrleif Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri, í forsvari.