No translated content text
Tillögur stýrihóps um endurskoðun á vetrarþjónustu voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun. Hlutverk stýrihópsins var að greina hvar þörf er á breytingum til að stuðla að skilvirkari þjónustu og hagkvæmni í rekstri.
Tillögur hópsins eru sextán talsins en þeim fylgir aðgerðalisti með samtals um 40 aðgerðum sem miðað er við að flestar verði komnar til innleiðingar fyrir næsta vetur. Áætlaður kostnaðarauki við rekstur vetrarþjónustu vegna þessara tillagna er um 190 milljónir á ári.
Vetrarþjónusta Reykjavíkurborgar er í sífelldri endurskoðun og þróun en dæmi um nýleg umbótaverkefni er að frá 2020 hafa göngu- og hjólaleiðir verið í þjónustu um helgar og hálkueyðing stíga hefur verið með salti í stað söndunar með góðum árangri.
Tillögurnar sextán
- Hækka þjónustustig húsagatna við snjóhreinsun
- Endurskoða verklag í tengslum við snjómokstur
- Skoða fýsileika á forvirkum aðgerðum til að koma í veg fyrir snjósöfnun
- Bæta snjóhreinsun gönguleiða, stoppistöðva og rútustæða í miðborg
- Skilgreina verklag í tengslum við klakamyndun á hituðum götum
- Finna lausn á vetrarþjónustu gönguleiða í Vesturbæ og Þingholtunum
- Þjónustustig taki mið af dýpt snjósins
- Innleiða markvissan óveðursviðbúnað í vetrarþjónustu
- Stuðla að væntingar séu í takti við það þjónustustig sem unnið er eftir
- Nota tæknina til hins ýtrasta til að stuðla að bættri upplýsingagjöf og mæla árangur
- Bæta móttöku og svörun ábendinga
- Bæta verklag við snjóhreinsun í samstarfi við þá verktaka sem henni sinna
- Efla samstarf við sveitarfélög og Vegagerðina
- Efla eftirlit í vetrarþjónustu
- Endurskoðun á útboðssamningum
- Rýni á vetrarþjónustu í nýju skipulagi og við endurhönnun gatna
Tækjum sem sinna húsagötum fjölgað og viðmiðum breytt
Dæmi um aðgerðir er að lagt er til að þjónustustig húsagatna verði hækkað þannig að byrjað verði að hreinsa götur við 10 cm í stað 15 cm snjódýptar. Einnig að tækjum sem sinna húsagötunum verði fjölgað þannig að það sé hægt að klára hreinsun að jafnaði innan tveggja sólahringa eftir að snjókomu lýkur.
Horft sérstaklega til gangandi og hjólandi
Horft er sérstaklega til gangandi og hjólandi en þrjár tillaganna varða stíga og stoppistöðvar. Lagt er til að gönguþveranir á stígum í forgangi 1 og 2 verði lausar við snjóruðninga innan tveggja sólarhringa frá síðustu snjókomu. Einnig er miðað við að biðstöðvar og rútustöðvar verði hreinsaðar af snjó innan tveggja sólarhringa frá síðustu snjókomu. Í báðum tilfellum er átt við þegar snjódýptin er allt að 15 cm.
Eining verður bætt verklag við snjóhreinsun. Meginreglan skal vera að setja snjóruðninga ekki á gangstéttir og skoðað verður til hins ítrasta hvernig koma megi í veg fyrir myndun snjóruðninga á gönguleiðum. Langt er til að gera kort af þeim svæðum og stígum sem ekki á að skilja eftir snjóruðning.
Hreinsun miðast við fimm tegundir af snjóveðri
Lagt er til breyta þjónustuhandbókinni á þann veg að snjóhreinsun taki mið af dýpt snjósins. Þannig verði hreinsunartími mismunandi eftir því hver snjódýptin mælist við jafnfallna snjókomu. Lagt er til að skilgreina fimm tegundir snjóveðra, byggt á snjódýpt. Þannig verður hægt að bregðast betur við þegar snjóar mikið.
- Snjóveður 1: Allt að 5 cm jafnfallinn snjór
- Snjóveður 2: 5-15 cm jafnfallinn snjór
- Snjóveður 3: 15-25 cm jafnfallinn snjór
- Snjóveður 4: 25-50 cm jafnfallinn snjór
- Snjóveður 5: yfir 50 cm jafnfallinn snjór
Lagt er til að útboðssamningar verði aðlagaðir að breyttu þjónustustigi eins og því er viðkomið. Hreinsunartíminn verður að jafnaði stystur fyrir snjóveður 1 en lengstur fyrir snjóveður 5.
Einnig verður innleiddur markviss óveðursviðbúnaður í vetrarþjónustunni og verður viðbragð tengt við verðurviðvaranakerfi Veðurstofunnar og samhæft við viðbragðsstig almannavarna á höfuðborgarsvæðinu til að geta miðlað upplýsingum betur til almennings.
Eftirlit verður eflt
Eftirlit er annars vegar eftirlit með færð á vegum og hins vegar með framkvæmd vetrarþjónustunnar. Fylgst verður með verklagi og framgangi vetrarþjónustu allan sólarhringinn og gerðar reglulegar úttektir á snjóhreinsun á vettvangi.
Ávinningur með öflugu eftirliti á ástandi vega felst í áreiðanlegra viðbragði við hálku og snjó á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Öflugra eftirlit með framkvæmdinni er bæði til þess fallið að athuga hvort snjóhreinsun sé sinnt eins og farið er fram á í útboðssamningum og tryggja samræmd vinnubrögð milli verktaka. Öll ökutæki sem sinna snjóhreinsun eru með ferilvöktunarbúnað.
Ýmsar aðgerðir
Dæmi um fleiri aðgerðir er að lagt er til að athuga kosti þess að setja snjóbræðslu í þéttingarreitum þar sem lítið rými er fyrir snjóruðninga og að tilgreint verði í skipulagsvinnu nýrra hverfa og svæða hvar hægt sé að geyma og losa snjó.
Stefnt er að því að bæta móttöku og svörun ábendinga en til dæmis er lagt til að skoða möguleika þess að borgarbúar geti séð á ábendingavef hvort búið sé að senda inn skilaboð um sömu ábendingu en oft berast nokkrar ábendingar um sama málið.
Einnig er stungið upp á tilraunaverkefni til að skoða hvort hægt sé að standa að forvirkum aðgerðum á götum sem safna miklum snjó með til dæmis uppsetningu veggja eða annarra snjóvarna til að draga úr snjósöfnun. Dæmi um slíkar götur eru Víkurvegur, Lambhagavegur og Korpúlfsstaðavegur.