Sex leik- og grunnskólalóðir og leiksvæði endurgerð

Framkvæmdir Skóli og frístund

Leiksvæði við Ártúnsskóla. Skólalóðin var endurgerð fyrir nokkrum árum.
Leiksvæði með rennibraut.

Alls verða þrjár lóðir við leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar endurgerðar á árinu. Enn fremur verða þrjú leiksvæði í Breiðholti endurgerð. 

Leikskólalóðirnar sem um ræðir eru við Suðurborg (2. áfangi) og Borg-Arnarborg en grunnskólalóðin er við Borgaskóla (2. áfangi). 

Endurgerð skólalóða felur í sér heildar endurskipulagningu lóða og endurnýjun frá grunni. Endurgerð lóða er oft skipt upp í fleiri en einn áfanga.

Að auki verða verulegar endurbætur á lóð leikskólans Bergs og á lóð Hlíðaskóla verður yfirborðsefni á körfuboltavelli endurnýjað.

Áætlaður kostnaður er 150 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir í maí og áætlað að þeim ljúki í október 2024.

Endurgerð leiksvæða í Breiðholti

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út þessar framkvæmdir og einnig framkvæmdir vegna endurgerðar opinna leiksvæða. 

Þrjú leiksvæði í Breiðholti verða endurgerð en þau eru í Krummahólum, Vesturbergi og Bakkaseli.

Endurnýja á yfirborð leiksvæða, það er fjarlægja perlumöl og setja hellur, gras og gervigras í staðinn og leiktæki verða endurnýjuð eftir þörfum. Lögð er áhersla á að gera leiksvæðin aðgengileg fyrir alla og bæta lýsingu þar sem þess er þörf.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er 50 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja framkvæmdir í byrjun maí og áætlað að þeim ljúki í september 2024.