Sex borgarhátíðir hljóta styrk

Óperudagar flytja FótboltaÓperuna eftir Helga Rafn Ingvarsson árið 2016.
Óperudagar flytja FótboltaÓperuna eftir Helga Rafn Ingvarsson árið 2016.

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu sérstaks faghóps um að sex hátíðir verði borgarhátíðir Reykjavíkur á árunum 2023-2025.

 

Hátíðirnar hljóta samstarfssamning við Reykjavíkurborg og styrk næstu þrjú árin en þær eru: Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars, Iceland Airwaves, RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, Óperudagar og Reykjavík Dance Festival. 

Hinsegin dagar – Reykjavík Pride, Hönnunarmars og Iceland Airwaves hljóta 10 milljónir króna hver á ári og RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Reykjavík Dance Festival hljóta 7,5 milljónir hvor á ári. Reykjavík Dance Festival hefur verið borgarhátíð frá árinu 2020 en hinar hafa verið borgarhátíðir frá árinu 2017. 

Nýliðinn í hópi borgarhátíða er Óperudagar sem hlýtur 5 milljónir á ári. Í umsögn um Óperudaga segir meðal annars að Óperudagar séu hátíð allra greina klassískrar sönglistar og að hátíðin hafi, þrátt fyrir að vera ung að árum, þrisvar sinnum hlotið tilnefningu sem Tónlistarviðburður ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og unnið verðlaunin einu sinni.

Hlutverk borgarhátíða er meðal annars að efla menningu og mannlíf í Reykjavík en þær þurfa líka að uppfylla ýmis önnur skilyrði, svo sem að vera aðgengilegar og sýnilegar, vera með alþjóðlega tengingu og uppfylla kröfur um fagmennsku og gæði.

Faglegt mat og stuðningur við borgarhátíðir

Við val á hátíðunum hafði ráðið til hliðsjónar umsögn fimm manna faghóps, skipaðan fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum skapandi greina, auk tveggja fulltrúa menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Í ferlinu var unnið eftir reglum um borgarhátíðir sem samþykktar voru í borgarráði þann 10. mars sl. 

Það er samhljóða niðurstaða faghópsins að nýliðinn, Óperudagar, og Reykjavík Dance Festival sem hefur verið borgarhátíð frá árinu 2020, gegni hvor um sig lykilhlutverki í sinni listgrein og sinni jafnframt báðar vel því mikilvæga hlutverki að efla mannlíf og menningu í Reykjavík. Þær eigi því fullt erindi til að hljóta titilinn borgarhátíðir Reykjavíkur næstu þrjú árin. Jafnframt telur hópurinn að þær fjórar hátíðir sem hafa verið borgarhátíðir undanfarin sex ár gegni hver um sig mikilvægu hlutverki í að birta fjölbreytta menningu borgarinnar og styrkja ímynd Reykjavíkur sem lifandi menningar-og mannréttindaborgar. Því telur hópurinn mikilvægt að þær verði áfram borgarhátíðir Reykjavíkur.

Auk stuðnings í formi beinna styrkja hafa borgarhátíðir í Reykjavík, undanfarin misseri, hlotið stuðning menningar- og ferðamálasviðs til að kynna sig betur, svo sem með fánum hátíðanna í miðborginni og samstarfi við Höfuðborgarstofu á sviði markaðs- og kynningarmála. Verður sá stuðningur veittur áfram, auk þess sem þróaðir verða fleiri samstarfsfletir borgarhátíða við Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg óskar hátíðunum til hamingju með styrkina og nafnbótina og hlakkar til samstarfsins. Í haust verður hægt að sækja um styrki úr borgarsjóði til verkefna á sviði menningar- og lista árið 2023 auk samstarfssamninga til tveggja eða þriggja ára.