Seinni skólabyrjun bætir svefn unglinga

Skóli og frístund

Sofandi unglingur

Færri unglingar sofa of lítið og klukkuþreyta minnkar þegar skólinn byrjar seinna samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var í Vogaskóla og tveimur samanburðarskólum. Að rannsókninni stóðu Betri svefn, Reykjavíkurborg, Háskólinn í Reykjavík og Embætti landlæknis.

Færri sofa minna en sjö klukkutíma

Megin niðurstöður voru að unglingar í Vogaskóla vakna marktækt seinna en unglingar í samanburðarskólunum tveimur og er munurinn um 40 mínútur. Skóladagurinn í Vogaskóla byrjar nú klukkan 9:10 en var klukkan 8:30 fyrir breytingu. Unglingar í öllum skólunum fara að sofa á svipuðum tíma. Ekki var munur á meðal svefnlengd unglinga heilt yfir eftir skólum en mun færri unglingar í Vogaskóla sofa undir viðmiðum eða sjö klukkutíma eða minna, eða 4% á móti 25% í hinum skólunum tveimur.

Mun minni klukkuþreyta

Þá var svefn unglinga í Vogaskóla mun jafnari yfir vikuna og þeir sýna mun minni klukkuþreytu (e. social jetlag) en nemendur í hinum skólunum. Klukkuþreyta myndast þegar fólk er vansvefta á virkum dögum en sefur mikið um helgar til að bæta það upp. Þetta er algengt meðal unglinga og hefur margvísleg neikvæð áhrif á heilsu og líðan. Klukkuþreyta tengist til að mynda lakari námsárangri, auknum hegðunarvanda og aukinni áhættu á ofþyngd meðal unglinga. Klukkuþreyta nam 46 mínútum að meðaltali í Vogaskóla en 109 mínútum í hinum skólunum sem byrja klukkan 8:30.

Ánægja meðal bæði nemenda og kennara

Viðhorfskönnun meðal nemenda og kennara sýndi að mikill meirihluti var ánægður með seinni skólabyrjun. Um helmingi nemenda finnst svefninn vera betri og segjast fá mun lengri svefn á virkum dögum.  Enginn nemandi upplifði verri svefn eða meiri þreytu við þessa breytingu. Flestir kennaranna eða 85% voru ánægðir með breytinguna sem hafi haft jákvæð áhrif á skólastarfið og vildu flestir halda seinkaðri byrjun skóladags áfram.

Samanburðarskólarnir voru Ölduselsskóli og Laugalækjarskóli. Unglingar í Vogaskóla og Laugalækjaskóla fengu að auki markvissa fræðslu um svefn frá kennurum sínum yfir veturinn.