Sandleikur, fuglarannsóknir og augnstýring í námi fá hvatningarverðlaun

Skóli og frístund

""

Þrír grunnskólar í Reykjavík fengu í dag hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir nýbreytni í skólastarfi, en verðlaunin voru afhent á fjölsóttri Öskudagsráðstefnu reykvískra grunnskólakennara. Þrír aðrir skólar fengu sérstaka viðurkenningu.

Ártúnsskóli fékk hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Sandleikur og sögugerð. Kristín Unnsteinsdóttir, forstöðumaður námsvers í Ártúnsskóla, hefur unnið merkilegt frumkvöðlastarf með því að þróa aðferð við að tengja sandleik við skólastarf með áhugaverðum árangri. Hún hefur notað sandleik til að efla sjálfstraust nemenda og virkja frjóa hugsun,  örva mál og skapandi tjáningu. Þá hefur Kristín gert rannsóknir á starfi sínu, skrifað tvær fræðibækur um niðurstöður sínar, haldið námskeið og tekur nú þátt í evrópsku samvinnuverkefni um efnið. Í umsögn dómnefndar um verkefnið sagði: Hér er um að ræða einstakt verkefni á sína vísu þar sem grunnskólakennari þróar eigin leið til að vinna með sjálfstraust, efla skapandi hugsun og nýta í frekara námi. Kristín hefur fylgt þróunarstarfinu vel eftir með því að gera rannsókn á eigin starfi og miðla til annarra í gegnum samstarf, skrif sín og námskeið.

Grandaskóli fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Fuglar sem  unnið var í samstarfi skóla í sex Evrópulöndum. Markmiðið er að þróa rannsóknarmiðað og þverfaglegt námsefni í náttúrufræði og raungreinum með áherslu á fuglaskoðun og rannsóknir á fuglum í sínu náttúrulega umhverfi. Rannsóknir nemenda og úrvinnsla, fjölbreyttar kennsluaðferðir og samskipti milli nemenda þátttökulandanna samþættir nám í landafræði, eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði , upplýsinga- og tæknimennt, listgreinum og tungumálum auk náttúrufræðinnar. Í verkefninu er mikil áhersla lögð á útikennslu til að efla umhverfisvitund nemenda og félagslega færni, virðingu fyrir umhverfinu og sjálfbærni.
Í umsögn dómnefndar segir: Hér er á ferðinni metnaðarfullt samstarfsverkefni þar sem nánasta umhverfi nemenda er nýtt til að kenna nemendum vísindaleg vinnubrögð um leið og þeir fræðast um og upplifa náttúruna. Verkefnið er vel til þess fallið að efla umhverfisvitund og virðingu nemenda ásamt því að fræðast um náttúru í öðrum löndum frá samstarfsskólunum.

Klettaskóli fékk hvatningarverðlaun fyrir verkefnið Augnstýring í Klettaskóla. Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari og ráðgjafi í Klettaskóla, hefur unnið að innleiðingu á notkun augnstýribúnaðar í skólanum, en hann er  gagnlegur fyrir þá sem af einhverjum völdum nýta sér ekki hefðbundnar tjáskiptaleiðir, en hafa stjórn á augnhreyfingum og geta því stjórnað venjulegri tölvu með augunum. Nemendur með takmarkaða möguleika til tjáningar læra að nýta möguleika upplýsingatækninnar til að velja sér viðfangefni, leika sér, skapa listaverk og tjá sig með einföldum táknum, myndum og stuttum setningum.
Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé frábært dæmi um hvernig nýta megi tækni í skólastarfi á framsækinn og uppbyggilegan máta. Þetta verkefni er byltingarkennt í bestu merkingu þess orðs, það opnar fyrir börnum heillandi veröld náms sem annars væri þeim að mestu eða öllu leyti lokuð.

Þrír grunnskólar fengu sérstaka viðurkenningu skóla- og frístundaráðs fyrir framsækið skólastarf:

Hólabrekkuskóli fékk viðurkenningu fyrir þemaverkefnið Nám á nýjum nótum fyrir nemendur í 8. – 10. bekk þar sem áhersla er á samvinnu nemenda og kennara og nemendur fá tækifæri til að hafa áhrif á nám sitt.

Rimaskóli fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Virðing – kynfræðsla í Rimaskóla fyrir nemendur í  8. – 9. bekk þar sem áhersla er á jákvæða sjálfsmynd, sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum. Nemendur fá einnig fræðslu um jafnréttislög, stöðu kynjanna í samfélaginu og vakin athygli þeirra á skaðlegri menningu sem getur leitt til kynbundis ofbeldis.

Vættaskóli fékk viðurkenningu fyrir verkefnið Valver Vættaskóla, sérúrræði á unglingastigi þar sem unnið er markvisst með einstaklinginn á hans forsendum.  Valverið hefur verið starfrækt frá árinu 2000 og skilað gríðarlega góðum árangri fyrir nemendur þess. 

Markmið hvatningarverðlauna skóla- og frístundaráðs er að vekja athygli á því fjölbreytta og metnaðarfulla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í grunnskólum, leikskólum frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar ásamt því að stuðla að aukinni nýbreytni og fjölbreyttu þróunarstarfi. Þau eru afhent á fagráðstefnum leikskólakennara, grunnskólakennara og frístundastarfsfólksins.

Öskudagsráðstefnan er stærsta fagráðstefna grunnskólakennara á landinu og sóttu hana á sjöunda hundrað manns.  Að þessu sinni bárust 15 tilnefningar til verðlaunanna fyrir áhugaverð þróunar- og nýbreytniverkefni í grunnskólunum.