Samvera er ein besta forvörnin

Skóli og frístund Menning og listir

""

Samvera skapar góð tengsl er eitt af slagorðum Samanhópsins sem á rætur sínar í niðurstöður rannsókna sem sýna að börn og unglingar sem verja tíma með foreldrum sínum eru síður líklegir til að sýna ýmis konar áhættuhegðun.

Í sumarfríinu gefst fjölskyldunni einstakt tækifæri til að gera ýmislegt saman sem þarf ekki að kosta mikið eða jafnvel ekki neitt. Lengi býr að fyrstu gerð og því er ákjósanlegt fyrir foreldra að hvetja til samverustunda fjölskyldunnar þegar börn eru ung og halda þeim inn í unglingsárin eins og kostur er. Viðfangsefnin þurfa jafnframt ekki að vera flókin.

Samskipti og samræður

Foreldrahlutverkið er krefjandi og gefandi í senn. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að börn og unglingar foreldra sem beita ákveðnum aðferðum í uppeldi, svokölluðum leiðandi uppeldisháttum, sýna síður merki um þunglyndi, kvíða og áhættuhegðun, s.s. vímuefnaneyslu og afbrotahneigð. Leiðandi uppeldi ýtir jafnframt undir þroska, virkni, sjálfstæði, sjálfsaga og sjálfstraust hjá börnum og unglingum. Það sem einkennir leiðandi foreldra er að þeir krefjast þroskaðrar hegðunar af börnum sínum og unglingum, sýna mikla umhyggju en setja um leið skýr mörk. Jafnframt eru samræður foreldra og barna og unglinga mikilvægur þáttur þar sem foreldrar og börn ræða sjónarmið sín og hugmyndir.

Þátttaka barna og unglinga í hvers kyns frístundastarfi er gróið í menningu okkar Íslendinga. Frístundastarf er öflug forvörn ef starfið er skipulagt og ábyrgir leiðbeinendur leiða starfið.

Reykjavíkurborg býður upp á skemmtilega fræðslu fyrir alla fjölskylduna Lífveruleit í Laugardalnum í júlí.

Bókin Ræðum saman – Heima er ein af bókum í bókaflokknum Samvera sem gagnast getur foreldrum í að efla umræður á heimilinu. Bókina má auk þess nálgast hjá Námsgagnastofnum og á bókasöfnum um allt land.

Að ræða við unglinginn sinn um kynlíf og barneignir er sumum foreldrum kvíðvænlegt. Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir halda úti góðri heimasíðu þar sem finna má ýmsar upplýsingar og bæklinginn Samskipti foreldra og barna um kynlíf  má nálgast á vef Embættis landslæknis.

Heimasíða Samanhópsins 

Facebooksíða Samanhópsins

Framboð á frístundastarfi