Samþykkt var að auglýsa deiliskipulag fyrir hluta Ártúnshöfða í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í morgun, 13. mars, en alls verða tæplega 600 íbúðir á svæðinu. Svæðið er kennt við Ártúnshöfða 2A og afmarkast af núverandi Ártúnshöfða til austurs, Elliðaám til vesturs, Stórhöfða til suðurs og til norðurs af lóðarmörkum við Sævarhöfða 12.
Tillagan var samþykkt í auglýsingu og vísað til borgarráðs. Eftir það fer samþykkt tillaga í auglýsingu í skipulagsgáttinni og þá gefst öllum tækifæri til að senda inn athugasemdir.
Borgarlínan liggur í gegnum hverfið
Gert er ráð fyrir íbúðum og blandaðri byggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu. Heildarfjöldi íbúða á skipulagssvæðinu er 582 en svæðið er um 5,48 hektarar að stærð. Borgarlínan fer eftir Stórhöfða og verður Borgarlínustöð inni á svæðinu með þjónustu í kring.
Svæðið sem um ræðir liggur í talsverðum halla og er fyrst og fremst svæði Malbikunarstöðvarinnar en nú eru þarna mikið til malarhaugar og grófgerð iðnaðarmannvirki.
Innan Ártúnshöfða 2A verður svokallaður C40 reitur en áður hefur verið kynnt niðurstaða skipulagssamkeppni um reitinn þar sem kynnt var til sögunnar hugmynd um stór timburbyggingu með íbúðum og þjónustu.
Aðrir deiliskipulagsáfangar fylgja í kjölfarið
Svæði 2A er hluti af rammaskipulagssvæði Ártúnshöfða við Elliðaárvog og er fyrsti deiliskipulagsáfangi á svæði 2. Þegar liggja fyrir deiliskipulagsáætlanir fyrir svæði 1 og svæði 4. Heildstæð skipulagstillaga hefur verið unnin fyrir allt svæði 2 en því verður skipt niður í minni áfanga. Í kjölfarið á þessum áfanga verður kynnt deiliskipulag fyrir áfanga 2B og 2C og einnig verður deiliskipulagsrenningur fyrir Borgarlínu kynntur sérstaklega.
Hönnunarhandbók setur fólk í forgang
Búið er að gera hönnunarhandbók fyrir Ártúnshöfða sem er leiðbeinandi fyrir útfærslu á almenningsrýmunum. Henni er ekki síst ætlað til að tryggja að rýmin verði aðlaðandi, vistvæn, örugg og fyrir alla aldurshópa; fólk, virkir ferðamátar og vistlegt umhverfi eru ávallt í fyrsta sæti.
Markmiðið er að skapa lífvænlega byggð, sem setur fólk í forgang og er félagslega, umhverfislega og efnahagslega sjálfbær. Það þýðir meðal annars að verslun og þjónusta skuli vera í göngufjarlægð frá íbúum og aðgengi að góðum almenningssamgöngum er tryggt en Borgarlínan liggur í gegnum hverfið. Í hverfinu fléttist þétt og blönduð byggð saman við græn útivistarsvæði.