Samstillt í breytingaferlinu

Skóli og frístund

""

Innleiðing á breyttu fyrirkomulagi skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi hófst með samstillingarfundi í Borgum í dag. Breytingarnar ná til þriggja grunnskóla, frístundaheimila skólanna og félagsmiðstöðvar. 

Fundinn sátu fulltrúar skólastjórnenda, starfsfólks, foreldra og nemenda í skólunum þremur sem breytingarnar ná til, Engjaskóla, Borgaskóla og Víkurskóla. Þeir skipa jafn marga innleiðingarhópa sem starfa munu næstu tvö ár og vinna að farsælum breytingum á skóla- og frístundastarfinu. Skólastjórar skólanna þriggja;  Árný Inga Pálsdóttir í Borgaskóla,  Álfheiður Einarsdóttir í Engjaskóla og Þuríður Óttarsdóttir í Víkurskóla leiða innleiðingarhópana.

Fjórði innleiðingarhópurinn er skipaður skólastjórunum þremur, auk stjórnenda á skóla- og frístundasviði, Atla Steini Árnasyni framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæjar, stjórnendum frístundaheimila og félagsmiðstöðvar, auk fulltrúa kennara, foreldra og nemenda. 

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ. er ráðgjafi allra innleiðingarhópanna.    

Á samstillingarfundinum í morgun fór Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, yfirverkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði, yfir lausnir og fyrirhugaðar framkvæmdir sem gerðar verða á gönguleiðum skólabarna í norðanverðum Grafarvogi í sumar. Einnig hélt Ingvar Sigurgeirsson stutt erindi um breytingar og nýsköpun í skólastarfi.  

Skólastarf í norðanverðum Grafarvogi verður með þeim hætti frá og með næsta skólaári að Engjaskóli og Borgaskóli verða fyrir fyrir nemendur í 1.-7. bekk, og Víkurskóli verður unglingaskóli fyrir 8.-10. bekk sem starfa mun undir merkjum nýsköpunarskóla. Frístundaheimili verða starfrækt í Borgaskóla og Engjaskóla og þar mun fara fram félagsmiðstöðvarstarf fyrir 10-12 ára nemendur. Félagsmiðstöð unglinga verður í Víkurskóla.