Samstarf Reykjavíkurborgar og fulltrúa atvinnulífsins

Menning og listir Samgöngur

""

Fyrsti fundur fulltrúa atvinnulífsins og Reykjavíkurborgar var haldinn í Höfða fyrir helgi en markmiðið með fundunum er að ræða hvernig koma megi á reglubundnu og víðtæku samtali milli aðila.

Formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stóð fyrir fundinum og var farið yfir gagnkvæmar þarfir og væntingar aðila. Að þessu sinni sátu fulltrúar ferðaþjónustunnar fundinn.

Kynnt var vinna við nýja ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar og verkefni samninganefndar borgarinnar við Airbnb. Þá var kallað eftir hugmyndum fulltrúa ferðaþjónustunnar um  hvað væri brýnt að bæta í samskiptum borgar og ferðaþjónustu og hvernig efla mætti samstarf milli aðila.

Af hálfu samtaka ferðaþjónustunnar voru á fundinum í Höfða formaður og framkvæmdastjóri SAF, Samtök aðila í ferðaþjónustu, ásamt formönnum fagnefnda SAF, en einnig sat fundinn varaformaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins. Af hálfu borgarinnar voru auk formanns borgarráðs, sviðsstjórar og borgarritari.