Samráðsfundur um samkeppnishæfni haldinn í Höfða

Atvinnumál

Atvinnulífsfundur Reykjavíkurborgar í Höfða, hópmynd af þátttakendum.

Móta þarf sameiginlega framtíðarsýn, setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu og efla stuðning við nýsköpun. Þetta voru helstu niðurstöður atvinnulífsfundar Reykjavíkurborgar sem haldinn var í fyrsta sinn í vikunni, í boði borgarstjóra og forseta borgarstjórnar í Höfða. Þar komu saman fulltrúar Reykjavíkurborgar, atvinnulífs, háskóla, klasa og verkalýðsfélaga og ræddu hvernig efla mætti alþjóðlega samkeppnishæfni Reykjavíkur og skapa borg þar sem nýsköpun þrífst.

Atvinnulífsfundur er liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar, Nýsköpun alls staðar, sem snýr að því að skapa sameiginlega framtíðarsýn milli borgar og atvinnulífs um áskoranir og markmið.

Innviðir, nýsköpun og framtíðarsýn

Virkt samtal var meðal 36 þátttakenda undir fundarstjórn Guðfinnu Bjarnadóttur um þá þætti sem þyrfti að huga sérstaklega að til að skapa sannkallaða nýsköpunarborg. Almenn ánægja var með samtalið meðal fundargesta og mikill samhljómur um helstu áskoranir og næstu skref. Gestir voru beðnir að forgangsraða verkefnum tengdum samkeppnishæfni úr atvinnu- og nýsköpunarstefnu og völdu þeir að leggja mesta áherslu á að setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu, setja fram sameiginlega og skýra framtíðarsýn, auka stuðning við nýsköpun og efla klasasamstarf.

„Ég er gríðarlega ánægð með þennan formlega vettvang. Það sem skiptir sköpum til að efla samkeppnishæfni borgarinnar eru klassísk verkefni sveitarfélaga eins og öflugir innviðir, grunnþjónusta, almenningssamgöngur og þjónusta en ekki síður menning, nýsköpun og sjálfbær þróun,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar. „Ég tek frá þessum fundi að við höfum skýran sameiginlegan metnað til að byggja upp skilning og traust og vinna saman að því að efla borgina.“

Bergur Ebbi Benediktsson fór með skemmtilega hugvekju þar sem hann líkti Reykjavík við metnaðarfullan ungling sem þarf að ákveða hvað hann vill verða þegar hann verður stór. Í umræðum var rætt um að hafa hugrekki til að byggja á því sem við erum góð í eins og orkumálum og sjávarútvegi. Auk þess var rætt um þjónustu og menningu sem undirstöður til að skapa borg sem fólk vill vera í og laða til Reykjavíkur bæði erlenda sérfræðinga og Íslendinga sem staddir eru erlendis. Þannig mætti undirbyggja skapandi nýsköpunarborg.